Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Lífeyrissjóðirnir fitna eins og frekt og ofdekrað barn á skyndibitafæði

Soldið klúr föstudagspistill að þessu sinni og er nánast bannaður yngri en 16 ára og ef þú ert viðkvæm sál, þá endar lesningin þín hérna.

Það er víst orðið stórhættulegt að auglýsa eftir fólki til vinnu. Atvinnuviðtal í Hveragerði fór úr böndunum og endaði atvinnurekandi með brotna tönn og læti. Já eitthvað slóst upp á vinskapinn með þeim afleiðingum að atvinnuleitandinn bara lamdi viðkomandi. Þið semþekkið mig vitið að ég er forvitinn, en ég velti fyrir mér hvort þetta átti sér stað í gróðurhúsi eða í Kjörís. Var gerð krafa um að viðkomandi nyti bara Kjöríss framvegis? Emmess ísæta sem missti stjórn á sér? Eða var þetta grænmetisæta sem vildi semja um frítt fæði í vinnunni ?

Árni Árna

Árni Árna

EM í fótbolta hefst í dag í Frakklandi og einhversstaðar heyrði ég að gert er ráð fyrir um 20 þúsund íslendingum á svæðið. Get ekki sagt að ég sé spenntur, er þó stoltur af strákunum okkar. Er samt hræddur um að árangurinn á EM sé þegar kominn fram og verði ekki meiri – Fegurðardrotting Ísland tók þann titil og var valin Miss EM. En það er flott að strákarnir mæti til leiks, en það er ekki þverfótað fyrir plagötum og myndum af þeim um alla borg. Ég hef orðið áhyggjur af þessu, Gylfi Sig sækir svo stíft að mér í svefni að ég þarf orðið að nota gúmmílakið.

Listin er fjölbreytileg og tekur á sig ótrúlegustu myndir – sumar málaðar með limi. Já ungur listamaður hefur sotið upp kollinum og vakið verðskuldaða athygli. Hann málar myndir með limum einum að vopni. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum nýtur þeirra forréttinda að eiga mynd af sér eftir þennan efnilega listamann. Myndir hangir í ráðhúsi bæjarins, svo er bara spurning hvort það hafi þurft að bæta aðeins í loftræsninguna, neyðarlegt ef listamaðurinn hafi verið óbaðaður í einhverja daga og typpalyktin svífi um ganganna í ráðhúsinu.

Er ekki lágmarkið að maður geti nú fengið nettan niðurgang eða bara kastað af sér vatni í vinnunni ? Tala nú ekki um að setjast niður og njóta kaffibollans. Stay Apartments líta svo á að starfsfólkið geti gert þessar þarfir utan vinnutíma. Já eða bara hreinlega verið í bleyju ef þess ber að skipta. Við erum að horfa upp á einkennileg atvik í íslensku samfélagi, mannsal og þrælahald, vinnustaði án salernisaðstöðu og kaffistofu – erum við að hverfa aftur um áratugi? Það er ljótt ef starfsfólk vinnustaða þurfa að taka túristann á þessa og kasta af sér í næstu innkeyrslu eða í næsta runna.

Um leið og ég óska vinkonu minni, Oddnýju Harðardóttur, þingmanni og Garðbúa til hamingju með sigurinn í formannsskosningunum í Samfylkingunni, verð ég að viðurkenna að ég er ekkert alveg sáttur við þetta. Ekki það að Oddný eigi þetta ekki skilið, enda hæfust í formannsstólinn, heldur að nú verð ég að fara að haga mér í skrifum mínum hérna. Ég verð að viðurkenna að ég hef gaman að láta til mín taka þegar Samfylkingin er annarsvegar og mun seint kallast aðdáandi Jóhönnu Sig eða Árna Páls. Ég ber ómælda virðingu fyrir Oddnýju og verð því að sleppa þá að fara djúpt í sakirnar, eða fara eins og köttur í kringum heitan graut, eða bara sleppa Samfylkingunni við sleggjudómana mína. Hvað á ég eigilega að gera? Mýkjast eða láta þetta eiga sig ?

Mikið er ég sammála Brynjari Níelssyni þingmanni um frekjuna í nefndarmanninum Ragnari Þós. Ráðherra og nefnd kom ekki saman um hvern skyldi ráða sem sem skólameistara í Borgarholtsskóla. Nefndin getur sitt álit á umsækjendum sem fer fyrir ráðherra. Álitið er ekki þar með sagt ákvörðunin sjálf – ráðherra hefur úrslitavaldið. Umræðurnar um málið litast af spillingu eins og alltaf á samfélagsmiðlum og þá er þar verið að tala um Illuga Gunnarsson, menntamálaráðherra sem nota bene kom ekki að ráðningunni. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra réði í starfið. Það er ótrúlegt hvað þessi fáa prósenta samfélagsins sér skrattan í öllum skúmaskotum. Getur ekki verið að þessi Ragnar sem er að missa sig yfir því að ekki skyldi verið farið eftir hans skoðun í þessu máli hafi mælt með einhverjum sem hann tengist ? Hver segir að nefndin hafi verið hlutlaus? Við vitum ekkert um það. Samt eru skrattagengið í skítkastinu eins og venjulega.

Þáttarstjórnandinn Ellen er geisilega vinsæl og fyrir nokkru síðan hóf Stöð 2 að sýna þætti hennar að nýju. Ég hef reynt að horfa á nokkra þætti með henni. Árangurinn er sá að ég er skíthræddur um að Trump verði kosinn forseti. Ég hreinlega skil ekki þessa þjóð. Hún er hálf poppuð og óútreiknanleg. Ellen er aðallega í að dæla út gjöfum til öskrandi kvenna sem fylla áhorfendapallana og þess á milli er hún í beinni víðsvegar um landið gefandi bíla, peninga og fleira. Það er í góðu lagi, en fyrir vikið er þátturinn frekar þunnur þrettándi – nema hvað að það eru allir öskrandi, hoppandi og skoppandi bara yfir því að sjá Ellen. Kallandi á Guð og mæður sínar í tilfinningarlegu uppnámi – þetta auðvitað vökvar vel egóið hjá Ellen. Ég fór bara að spá í því ef ég rækist á Evu Kvaran eða Loga Bergman í Bónus og myndi tryllast, hoppa og skjálfa og öskra eins og sært dýr. Erum við íslendingar svona tilfinningalega heftir eða erum við bara raunsæ og áttum okkur á því að fólkið sem starfar í fjölmiðlum, leikarar og tónlistamenn eru bara fólk alveg eins og við? Ég vil mein það og skipti um stöð þegar Ellen mætir á skjáinn, nenni ekki grenjandi könum.

Guðný Baldvinsdóttir 102 ára skörungur í Borgarnesi skilur ekki þennan átroðning fjölmiðla sem raska ró hennar. Hún hefur aldrei verið athyglissjúk og vonar að það eigi ekki eftir að hellast yfir hana. Þessi erna kona er ótrúleg,aldrei farið í sund eða leikfimi,hvað þá tekið lýsi – þar fara heilsuráðin út um gluggann fyrir lítið, en aftur á móti hefur hún heldur ekki reykt né drukkið. Viðtalið við hana er skemmtilegt og er hún spurð hvað hún ætli sér að verða gömul – ég er tilbúin að drepast strax á morgun, sagði þessi elska. Það eru forréttindi að eldast eins og Guðný sem hefur ekki þurft að taka inn lyf um ævina, sumir eru heppnari en aðrir, það er á hreinu.

Seltjarnarnes er ekki bara fallegt og vel rekið sveitarfélag með Gróttuna og norðurljósin. Nei Seltjarnarnes er nektarnýlenda. Þar er náttúrupottur sem að vísu rúmar bara meðal íslending í yfirþyngd (er samt ekki búinn að máta hann sjálfur.) Ungt par kastaði af sér klæðum og nutu útsýnisins sem íbúar í hverfinu gerðu líka. Um leið og þetta rataði í fjölmiðla hafa seltirningar verið að rífa niður gardínur svo ekkert trufli útsýnið og einn fermingardrengur gekk svo langt að eyða fermingapeningunum í slátturvél og tekur að sér að slá lóðir til að missa örugglega ekki af neinu.

Dómur Hæstaréttar í gær leggur línurnar að brotthvarfi Reykjavíkurflugvallar úr Vatnsmýrinni. Það er miður hvað mig varðar, flugvöllurinn hefur verið hluti af borgarmenningunni í miðborginni og það er einhver sjarmi að sjá þær svífa yfir. Það minnir okkur á að samgöngur landshornanna á milli og við höfuðborg landsins eru mikilvægar. Ég hef samt áður sagt það að ég man vart eftir öðru síðan ég var krakki að rifist hefur verið um veru hans. Vinstri menn í borginni ná sigri í þessu máli með aðstoð Hönnu Birnu fyrrverandi ráðherra og brátt fyrrverandi þingmanni. Ég er þó viss um að hverfið gæti orðið fallegt sem þarna mun rísa, en það er bara spurning hvort það sé nægur fjöldi landsmanna sem búa við það góð kjör og áhuga á að búa þar. Fermetraverðið mun án efa vera í háloftunum á meðan ungt fólk og millitekjufjölskyldur lafa áfram á leigumarkaðnum vegna skorts á fasteignum á sanngjörnu verði.

Það væri ekki leiðilegt að fá 104% launahækkun – myndi ekki hafna því og fæstir myndu nú gera það. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs verslunarmanna er svo lánsamur að fá um 35 milljónir í árslaun. Formbreyting á launakjörum er skýringin þar sem hlunnindi eru talin með. Sumum endist vart lífið til að vinna sér inn árstekjurnar hjá þessum mæta manni. Á sama tíma eru lífeyrisþegar búnir að taka á sig skerðingar og það er löngu fyrirséð að betra er að leggja upphæðina inn á bankareikning en að borga í lífeyrissjóði. Lífeyrissjóðirnir eru án efa að taka okkur ósmurt í rassgatið – jú sumir eru að fýla það en ekki nærri allir. Ungur maður skrifaði einmitt grein á Pressuna á dögunum og fór yfir lífeyrismál afa sins. Afi hans hafði greitt langt yfir 30 milljónir í lífeyrissjóð en sjóðurinn áætlaði til um hve gamall hann yrði og greiddi honum vissa upphæð á mánuði. Miðað við aldurinn sem spáð var fyrir um kæmi tæpur helmingur upphæðinnar til baka. Lífeyrissjóðirnir fitna eins og frekt ofdekrað barn á skyndibitafæði, ropar og vill alltaf meira. Og hvað gerum við? Ekkert, höfum ekki einu sinni vit á því að nota sleipiefni til að milda sársaukann.

Góða helgi