Nýjast á Local Suðurnes

Mystery Boy á Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu – Áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins

Fimmtudaginn 24.maí verður söngleikurinn Mystery Boy, áhugaverðasta áhugaleiksýning ársins 2017-2018, sýndur á Stóra sviði Þjóðleikhússins kl. 19:30.

Í umsögn dómnefndar Þjóðleikhússins um sýninguna segir: Sýning Leikfélags Keflavíkur á Mystery Boy eftir Smára Guðmundsson, í leikstjórn Jóels Sæmundssonar fjallar á óvenjulegan hátt um mikilvæg málefni. Verkið er byggt á reynslu höfundar af því að fara í áfengismeðferð. Fantasíukennd nálgun höfundar við efnið er til þess fallin að gera efnið aðgengilegt og skemmtilegt og um leið er fjallað um sígild viðfangsefni eins og ástina, freslisþrána, óttann, átökum um völd, baráttu góðs og ills, mannleg samskipti og það að upplifa sig á einhvern hátt utangarðs.

Þetta er í annað sinn sem sýning frá Leikfélagi Keflavíkur hlotnast þessi heiður en síðast gerðist það árið 1999 þegar leikfélagar flettu sig klæðum í sýningunni Stæltir Stóðhestar.

Tónlistin og flutningur hennar er samtvinnuð verkinu þar sem hljómsveitin heldur sig á sviðinu alla sýninguna og er það mat margra sem sýninguna hafa séð að samspil hljómsveitarinnar og leikaranna sé límið í sýningunni. Tæknileg atriði og útfærsla þeirra hefur einnig vakið athygli og þá ekki síst lýsing Þórhalls Arnars Vilbergssonar sem nær að skapa hin sérstöku skil milli þessa heims og þess sem leikin er á sviðinu.

Sýningum í Frumleikhúsinu er lokið og er því um að ræða allra síðasta tækifærið til þess að sjá þessa skemmtilegu og lifandi sýningu.

Miðverð er 3.000kr og fer miðasala fram á tix.is