Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær á von á milljörðum króna – Öllu ráðstafað til niðurgreiðslu skulda

Viðbúið er að Reykjanesbær fái á fjórða milljarð króna í sinn hlut vegna sölu á hlut fjárfestingarsjóðsins ORK í HS Orku. Samlagsfélagið Jarðvarmi, í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, verður með tögl og hagldir í eina íslenska orkufyrirtækinu í einkaeigu eftir þær vendingar sem orðið hafa í eigendahópnum undanfarið.

Þetta kemur fram í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans, en heimildir Kjarnans herma að kaupverðið hafi verið 8,8 milljarðar króna. Reykjanesbær getur því átt von á að fá rúmlega fjóra milljarða króna til viðbótar við það sem sveitarfélagið fékk þegar það seldi skuldabréfið upphaflega.

Í ljósi þess að Reykjanesbær er eitt skuldsettasta sveitarfélag landsins – skuldir samstæðunnar voru um 45 milljarðar króna í fyrra – og samfélagið þar mun verða fyrir umtalsverðum áhrifum vegna gjaldþrots WOW air og samdráttar í ferðaþjónustu, þá munu þeir fjármunir sem falla til vegna sölu á hlut ORK, koma sér afar vel. Þá kemur fram í fréttaskýringu miðilsins að fjármununum verði öllum ráðstafað til niðurgreiðslu skulda.