Nýjast á Local Suðurnes

Útskýra gjöld vegna sorphirðu

Íbúa Reykjanesbæjar eiga von á álagningarseðlum á næstu dögum og eins og undanfarin ár verða gjöld vegna hirðu og meðhöndlunar úrgangs innheimt samhliða.

Sú breyting hefur orðið á að nú er innheimt eftir því rúmmáli sem íbúar hafa til umráða við sín hús en ekki föst gjöld. Þessi breyting er tilkomin vegna lagabreytinga en samkvæmt lögum nr.55/2003 er sveitarfélögum skylt samkvæmt lögum að innheimta gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs sem næst raunkostnaði. Skylt er að innheimta gjald sem miðast við magn og gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun hans, segir í tilkynningu á vef sveitarfélagsins.

Reykjanesbær byggir gjaldskrá sína á áætluðum kostnaði við málaflokkinn. Skylt er að flokka í fjóra flokka við heimili en íbúar geta nú, að einhverju leyti, stýrt því hvaða tunnur henta best við sitt heimili svo lengi sem krafan um fjóra flokka er uppfyllt.

Á álagningarseðlum sem íbúar fá í ár er að finna upplýsingar um gjöld annars vegar byggð á stærðum, fjölda og tegundum íláta og hins vegar gjöld vegna fasts kostnaðar vegna reksturs grenndar- og söfnunarstöðva og annars fasts kostnaðar.

Í sérbýli er miðað við að hvert heimili sé með þrjár tunnur sem allar eru 240 lítrar að rúmmáli og þar af er ein þeirra tvískipt. Tvískipta tunnan er losuð á 14 daga fresti en endurvinnslutunnurnar tvær eru losaðar á 28 daga fresti. Hér að neðan má sjá dæmi um útreikning á gjöldum fyrir þetta tiltekna dæmi.

Dæmi um kostnað við sérbýli skv. gjaldskrá 2024:

Tvískipt ílát | Blandaður úrgangur og matarleifar 240 L – 40.560 kr.
Pappi og pappír 240 L – 7.920 kr.
Plastumbúðir 240 L – 7.920 kr.
Rekstur grenndar- og gámastöðva – 13.500 kr.
Samtals: 69.900 kr. á ári