Nýjast á Local Suðurnes

Vígja göngu- og hjólastíg á milli hverfa

Göngu- og hjólastígurinn á milli Garðs og Sandgerðis er nú tilbúinn og eru íbúar og gestir Suðurnesjabæjar þegar farnir að nota stíginn.

Fimmtudaginn 27. ágúst kl.12.30 verður margt um manninn á stígnum en þá fá grunnskólanemendur beggja skólanna í sveitarfélaginu, Gerðaskóla og Sandgerðisskóla, þann heiður að vígja stíginn formlega.

Formleg vígsla mun fara fram með mikilli litagleði og litasprengju frá kl.12.30 – 13.30 og aðgengi annarra en grunnskólanema verður takmarkað að stígnum á sama tíma, segir í tilkynningu á vef Suðurnesjabæjar. Áætlað er að viðburðurinn taki um eina klukkustund.

Vinna við stíginn, sem er malbikaður og upplýstur alla leið, hófst í kjölfar útboðs síðastliðið haust og sá verktakafyrirtækið Ellert Skúlason um framkvæmdina.