Nýjast á Local Suðurnes

Ferskir vindar í Garði – Sýningar og kynningar næstu tvær helgar

Fjölmargir listamenn koma að listahátíðinni Ferskir Vindar

Listahátíðin Ferskir vindar í Garði er nú haldin í fjórða skipti.  Hátíðin stendur yfir 15. desember 2015 til 17. janúar 2016.  Hátíðin er samstarfsverkefni Ferskra vinda og Sveitarfélagsins Garðs, sem er bakhjarl hátíðarinnar. Framkvæmdastjóri og listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Mireya Samper.

Ferskir vindar er einstakur viðburður sinnar tegundar og er í hópi stærstu listahátíða á Íslandi.  Saman koma yfir 50 listamenn úr mörgum listgreinum af um 20 þjóðernum. Listamenn dvelja í Garði og vinna að sinni listsköpun, sýningar og kynningar verða helgarnar 9. – 10. janúar og 16. – 17. janúar.  Dagskrá báðar helgarnar má finna hér og eru allir viðburðir Ferskra vinda opnir almenningi þeim að kostnaðarlausu.

Markmið listahátíðarinnar Ferskra vinda er að skapa lifandi umhverfi sem allir njóta góðs af, með nýstárlegum listaverkum og uppákomum.  Einnig að mynda tengslanet milli innlendra og erlendra listamanna og efla um leið íslenska myndlist og fjölbreytileika menningarviðburða á Íslandi.  Þá er það markmið að hátíðin gegni mikilvægu hlutverki við að auka komu ferðafólks á svæðið, færa listina til fólksins og auðga andann.

Nánari upplýsingar eru á www.fresh-winds.com og á Facebook síðunni Fresh Winds in Garður.