Kvartað yfir slæmri lýsingu og yfirfullum sorptunnum við FLE
Notendur Facebook-síðunnar Bakland ferðaþjónustunnar hafa að undanförnu lýst óánægju sinni með aðstæður á Keflavíkurflugvelli, sem eru sagðar allt annað en boðlegar fólki sem er að koma til landsins. Sérstaklega hefur verið kvartað undan slæmri lýsingu fyrir utan flugstöðina og yfirfullum sorptunnum og hefur fólk birt myndir og myndbönd máli sínu til stuðnings.
Einn notenda síðunnar segir þetta skammarlegt og að ekki hafi verið kveikt ljós á gönguleiðum umhverfis flugstöðina í einhverjar vikur.
“Mér finnst þetta vera skammarlegt, það eru ekki búin að vera kveikt ljós í fleiri daga eða vikur, sama ruslið svo dögum skiptir og ekkert gert.”
Umferð um Keflavíkurflugvöll hefur verið gríðarlega mikil að undanförnu að sögn Guðna Sigurðssonar upplýsingafulltrúa Isavia, en hann segir að brýnt hafi verið fyrir þeim, sem sjá um sorphirslu að fylgjast sérstaklega með umræddum tunnum.
„Undanfarna daga hefur umferð um Keflavíkurflugvöll verið gríðarlega mikil og stærstu dagar hafa jafnast á við stærstu daga ársins hvað farþegafjölda varðar. Auk þess hefur veður ekki verið gott og mikið myrkur.
Við þessar aðstæður safnast farangurskerrur hratt upp og það á einnig við um sorp í sorptunnum. Við tökum þessar ábendingar hins vegar til okkar og úrbætur standa yfir,“ segir Guðni.
Þá hefur mbl.is eftir Guðna að unnið sé að lagfæringum á lýsingu á svæðinu við flugstöðina.