Nýjast á Local Suðurnes

Staða húshitunar í Grindavík aðgengileg í kortavefsjá

Staða húshitunar í Grindavík er nú aðgengileg í kortavefsjá. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þar segir að taka þurfi upplýsingunum í vefsjánni með fyrirvara því staðan geti breyst með litlum eða engum fyrirvara.

Kortið var síðast uppfært síðdegis laugardaginn 20. janúar en verður aftur uppfært í dag. Það verður svo, samkvæmt tilkynningu, uppfært á hverjum degi fyrir klukkan 20:00 og geta þá bæjarbúar séð hvort einhverjar breytingar hafa orðið á þeirra fasteign. Kortið er hér. 

Til að sjá stöðuna á fasteignum á kortavefsjánni þarf að smella hægra megin á kortavefsjánni og haka í „húshitun, staða“.

• Grænn punktur merkir að hitakerfi fasteignarinnar virki.

• Fjólublár punktur merkir að sett hafir verið af stað kynding með rafmagni.

• Enginn punktur eða punktur í öðrum lit merkir að ekki hefur verið staðfest að hiti sé kominn á fasteign.

Ef það kemur í ljós að tjón hefur orðið í fasteigninni mun viðbragðsaðili hafa samband við fyrsta tækifæri af viðbragðsaðila.