“Langaði að hætta í fótbolta, íþróttinni sem ég lifði fyrir”
Skrifar Sigurbergur Elísson leikmaður Keflavíkur í pistli um kvíða og þunglindi
Sigurbergur Elísson lék sinn fyrsta leik í efstu deild í knattspyrnu þegar hann var aðeins 15 ára gamall og varð þar með yngsti leikmaðurinn til að leika í efstu deild. Sigurbergur meiddist illa árið 2009 og í kjölfarið fylltist hann kvíða og þunglyndi. Sigurbergur skrifar opinskáan pistil um veikindi sín á vefsíðunni Fótbolti.net, þar segir hann meðal annars:
“Mig langaði að hætta í fótbolta, íþróttinni sem ég lifði fyrir. Ég nennti ekki að koma og horfa á leiki eða æfingar. Ef ég væri ekki þátttakandi að þá vildi ég ekki mæta. Kvíðinn og sú vanlíðan sem fylgdi mér hvert fótmál gerði það að verkum að ég fór að forðast fólk. Fólk sem sagði t.d. hluti eins og “Meiddur? Pff, þetta er allt í hausnum á þér” eða “Hættu þessum aumingjaskap” dró mig ennþá dýpra niður og ég fór þá að hugsa: “Þetta er rétt hjá þeim”.”
Þetta er á meðal þess sem Sigurbergur skrifar í pistli sínum en hann skrifar auk þess um þau góðu áhrif sem koma Þorkels Mána Péturssonar inn í þjálfarateymi liðsins hafði á hann:
“Það var ekki fyrr en Þorkell Máni Pétursson kom inn í þjálfarateymið að ég fór að lagast. Hann kenndi mér að lífið er ekki bara fótbolti, það er svo margt annað sem er mikilvægara. Máni Péturs og Kristján Guðmunds eiga stóran þátt í mínum bataferli og verð ég þeim ævinlega þakklátur.” Segir í pistlinum.
Pistilinn í heild sinni má finna hér.