Nýjast á Local Suðurnes

Grindvíkingar synda til styrktar Ólavíu

Enn og aftur ætla grindvískir sundmenn að synda til góðs. Þau ætla að synda maraþonsund frá kl. 14 á föstudaginn 30. október til kl. 14 á sunnudaginn 2. nóvember. Sú sem verið er að synda fyrir heitir Ólavía Margrét Óladóttir sem er lítil stelpa frá Grindavík sem er með krabbamein í augum.

„Ólavía Margrét fæddist í júní sl. og er þegar búin að fara í nokkrar aðgerðir til að reyna að bjarga augunum hennar. Foreldrar hennar eru ungt og efnilegt fólk en því miður leggst mikill kostnaður á fólk sem stendur í svona erfiðum málum og það er okkar kæru vinir að hjálpa sundkrökkunum að safna fé fyrir þetta góða fólk og taka vel undir kallið frá sundfólkinu okkar,” segir í tilkynningu frá grindvíska sundfólkinu.

Búið er að stofna reikning og er bankanúmerið 0143-05-60098 kt:300715-3110.

„Mér persónulega finnst ómetanlegt þegar krakkar taka upp á því að leggja mikla vinnu á sig til að hjálpa fólki í neyð. Ég hef þann heiður að vera þjálfari þessara sundkrakka sem eru með hjarta úr gulli. Krakkar þið eruð mínar hetjur og mér finnst ómetanlega væntu um ykkur öll. Vonandi taka allir vel í þetta og styrkja þetta frábæra málefni,” segir Magnús Már þjálfari á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Grindvískir íþróttamenn hafa verið duglegir við að styrkja góð málefni undanfarin misseri en í sumar létu bæði meistarflokkur karla og kvenna í knattspyrnu sektarsjóði sína renna til góðra málefna.