Nýjast á Local Suðurnes

Sálfræðistríð á milli Njarðvíkurliða í Powerade-bikarnum

B-lið UMFN hefur unnið bikar áður og eru komnir á bragðið - Stefnan er sett á að næla í annan og þá aðeins stærri í þetta sinn

Eins og flestum unnendum körfuknattleiks ætti að vera kunnugt þá leika tvö lið frá Njarðvík í 8-liða úrslitum Powerade-bikarkeppninnar. Aðallið félagsins mun leika gegn Haukum b eða KR (afar líklegt verður að teljast að KR-ingar verði mótherjarnir) og B-lið Njarðvíkinga, sem leikur í annari deildinni og er enn taplaust á tímabilinu, mun taka á móti efsta liði Domino´s deildarinnar, Keflavík, í Ljónagryfjunni. Leikirnir fara fram dagana 9.-11. janúar næstkomandi.

Einn fremsti körfuboltavefur heims sé miðað við höfðatölu, Karfan.is, greindi frá því í gær, í léttum dúr, að mikið sálfræðistríð sé hafið á milli Njarðvíkurliðanna tveggja, sem að sögn óformlegs formanns B-liðsins Jakobs Hermannssonar, snúist um sjálfan úrslitaleikinn, enda sé leið beggja liða þangað greið, allavega B-liðsins.

Auglýsing: Merkjaföt á Outlet-verðum

Sálfræðistríðið hóst þegar Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari aðlalliðins (og stundum liðsstjóri B-liðsins) lét þau orð falla í útvarpsþættinum Akraborgin á X-inu um félaga sína í B-liði Njarðvíkur að

“…með fullri virðingu fyrir þeim góðu mönnum að þá hefði kannski verið þægilegast að fá þá og hafa svona kósý stund í Ljónagryfjunni.”

Hlusta má á viðtalið við Friðrik Inga hér og lesa umfjöllun Karfan.is hér.