Nýjast á Local Suðurnes

Park and fly stefnir á að safna hátt í 20 milljónum króna

Bílastæðafyrirtækið Park and fly, sem starfar við flugstöð Leifs Eiríkssonar, hefur hafið söfnun í samráði við Landspítalann, en fyrirtækið hefur látið framleiða tíu þúsund bangsa sem seldir eru í gegnum vef fyrirtækisins. Gangi áætlanir eftir munu safnast hátt í 20 milljónir króna.

Í tilkynningu á vef fyrirtækisins kemur fram að eftirspurn eftir þjónustu fyrirtækisins hafi hrunið vegna ástandsins í þjóðfélaginu og að ákveðið hafi verið að snúa vörn í sókn og nota krafta starfsfólksins til að styðja við bakið á þeim sem standa í framlínunni í baráttunni við Covid-19.

Fyrirtækið hefur í samráði við Landspítalann látið framleiða 10.000 eintök af böngsum sem hengja má í glugga bifreiða, heimila og fyrirtækja í landinu. Allur ágóði af Bangsölunni rennur til Landspítalans. Fyrirtækið lætur þó ekki staðar numið þar, en fimmtíu böngsum fylgir sérstakur glaðningur frá fyrirtækinu, hvar um er að ræða alþrif og bón á bifreiðum auk bílastæðis í vöktuðum stæðum fyrirtækisins þegar ferðalangar komast af stað á ný.

Bangsarnir eru seldir á vef fyrirtækisins, parkandfly.is og kosta litlar 1.990 krónur stykkið. Í tilkynningu á vef fyrirtækisins kemur einnig fram að starfsfólk Park and fly munu gefa alla vinnu sem snýr að þessu verkefni. Þá mun fyrirtækið greiða sendingarkostnað upp að fyrstu 350 sendingunum en eftir það leggjast 195 krónur á hverja pöntun.

Fyrirtækið og eigendur þess hafa áður látið gott af sér leiða, en á dögunum fengu mörg hundruð aðilar páskaegg að gjöf frá fyrirtækinu. Þá hefur komið fram á SnapChat aðgangi eiganda fyrirtækisins, Reynis Bergmann, að hann hafi safnað tæpum 20 milljónum króna til góðgerðarmála á undanförnum árum.