Nýjast á Local Suðurnes

Fimm milljarða plús hjá Reykjanesbæ á síðasta ári

Framtíðarhorfur Reykjanesbæjar eru ágætar, að mati bæjarstjórnar, þrátt fyrir tímabundna erfiðleika vegna Covid 19, en bæjarsjóður skilaði um fimm milljarða króna hagnaði á síðasta ári.

Áfram verður unnið að því að bæta aðstæður íbúa, segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar, sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan.

„Ársreikningur Reykjanesbæjar vegna ársins 2019 er í ágætu samræmi við fjárhagsáætlun ársins, að teknu tilliti til þeirra einskiptisliða sem hafa veruleg áhrif á niðurstöðu ársreiknings.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2019 námu um 26,8 milljörðum króna samkvæmt samstæðureikningi. Rekstrartekjur bæjarsjóðs námu um 17,8 milljörðum króna.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 8,8 milljörðum króna en starfsmenn sveitarfélagsins voru að meðaltali 976 talsins. Rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 4,6 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða er rekstrarniðurstaða jákvæð um 5,8 milljarða króna.

Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 9 milljarða króna en að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um rúma 6,8 milljarða.

Þeir einskiptisliðir sem hafa veruleg áhrif á rekstrarniðurstöðu koma til vegna sölu á hlutabréfum í HS Orku upp á rúma 2,7 milljarða króna og síðan færist reiknuð færsla vegna leigusamninga til tekna upp á tæpan 1,3 milljarð króna.

Þá var einnig afskrifuð skuld Íslendings sem er eigandi Víkingaheima, við Reykjanesbæ að upphæð kr. 250 milljónir sem útséð var um að fengist nokkurn tímann greidd.

Heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi námu um 70 milljörðum króna og heildareignir bæjarsjóðs námu tæpum 37 milljörðum króna í árslok 2019. Heildarskuldir og skuldbindingar í samanteknum ársreikningi námu um 44 milljörðum króna og í ársreikningi bæjarsjóðs um 26,5 milljörðum kóna í árslok 2019. Eigið fé í samstæðu nam um 26 milljörðum króna og eigið fé bæjarsjóðs var 10,2 milljarðar króna í árslok 2019.

Eigið fé hefur því aukist um 6 milljarða á milli ára hjá bæjarsjóði og 8 milljarða hjá samstæðu.
Skuldaviðmið heldur áfram að lækka og er nú 108,91% hjá samstæðu en 88,53% hjá bæjarsjóði.

Það er ærin ástæða til að fagna góðri rekstarniðurstöðu og þeirri staðreynd að Reykjanesbær er laus undan samningi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.

Um leið er rétt að benda á að heimsfaraldurinn af völdum Covid – 19 mun hafa veruleg neikvæð áhrif á rekstur sveitarfélagsins á þessu ári og jafnvel lengur. Rekstrarniðurstaða ársins 2019 gerir það hins vegar að verkum að sveitarfélagið er ágætlega í stakk búið til þess að takast á við þær áskoranir sem þessu fylgja. Því er ekki síst að þakka frábæru starfsfólki Reykjanesbæjar sem hefur unnið ötullega að því að gera þessar aðstæður bærilegar fyrir íbúa sveitarfélagsins. Viljum við færa þeim bestu þakkir fyrir.

Framtíðarhorfur Reykjanesbæjar eru hins vegar ágætar, þrátt fyrir tímabundna erfiðleika og áfram verður unnið að því að bæta aðstæður íbúa. Munum að öll él birtir upp um síðir.“