Nýjast á Local Suðurnes

Áskorun íbúa Ásahverfis velkist um í kerfinu

Áskorun íbúa Ásahverfis til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar um að gera úrbætur og laga það sem upp á vantar til að klára það sem lagt var upp með í skipulagi hverfisins er til skoðunar hjá umhverfissviði sveitarfélagsins.

Áskorunin var sett fram í fjórum liðum fyrir um einu og hálfu ári síðan:

1. Aðkoma inn í hverfið,

2. Leiksvæði og gönguleiðir,

3. Örugg leið til skóla og

4. Frágangur byggingarsvæða.

Starfsfólki umhverfissviðs var falið að koma með tillögur að frekari úrbótum fyrir rúmu ári síðan, eins og áður segir, en áður en það var mögulegt þurfti að ljúka umferðargreiningu fyrir hverfið. Á síðasta fundi var málið tekið fyrir á ný og óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins.

Þrátt fyrir langan tíma í kerfinu tekur umhverfis- og skipulagsráð undir með íbúum hverfisins og felur starfsmönnum umhverfssviðs að koma með tillögur að úrbótum fyrir fund umhverfis- og skipulagsráðs í desember. Þangað til þarf þó að skoða bráðabirgðaaðgerðir að mati ráðsins.