Corbin Jackson rekinn frá Njarðvík
Corbin Jackson mun ekki leika meira með körfuknattleiksliði Njarðvíkur, en samningi við hann var rift í dag. Í tilkynningu frá Njarðvíkingum kemur fram að Corbin hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar.
Njarðvíkingar hafa farið illa af stað í Dominos-deildinni og eru sem stendur í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins tvö stig eftir fjóra leiki. Liðið tapaði með 28 stiga mun gegn Tindastól í gærkvöldi, í leik þar sem ekkert gekk upp hjá liðinu, Corbin Jackson skoraði 15 stig í þeim leik.
Heimildir Suðurnes.net herma að Njarðvíkingar séu á höttunum eftir hávöxnum miðherja sem leikið hefur hér á landi áður, en Gunnar Örlygsson, formaður Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vildi ekki staðfesta það þegar eftir því var leitað í dag, en sagði menn þurfa að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin.
“Við liggjum nú undir feldi og verðum að bregðast við með einum eða öðrum hætti.” Sagði Gunnar í stuttu spjalli.