Nýjast á Local Suðurnes

Grindvíkingar gefa Abel sektarsjóðinn – Skora á önnur félög að gera hið sama

Meistaraflokkur Grindvíkinga í knattspyrnu hefur ákveðið að gefa sektarsjóð sinn í söfnunina fyrir markvörð ÍBV, Abel Dhaira, sem glímir við erfið veikindi um þessar mundir. Í yfirlýsingu sem Grindvíkingar hafa sent frá sér og sjá má hér fyrir neðan skora þeir á önnur félög að gera slíkt hið sama.

Grindvíkingar hafa áður gefið sektarsjóði sína til góðra málefna, en síðastliðið sumar gáfu bæði meistaraflokkur karla og kvenna sektarsjóði sína, konurnar hétu á Petru Rós Ólafsdóttur, stjórnarmann í kvennaráðinu, sem hljóp til styrktar FAAS í Reykjavíkurmaraþoninu og karlarnir hétu á Sverri Tý Sigurðsson sem hljóp fyrir félagið Einstök börn.

Yfirlýsing frá Grindavík

Á dögunum gáfu Eyjamenn það út að hinn öflugi markvörður þeirra Abel Dhaira yrði ekki með næsta sumar vegna alvarlegra veikinda, sem reynist vera krabbamein.

Það lýsir Eyjamönnum hvað best að þeir fluttu Abel veikan til Íslands frá Úganda til að geta staðið með honum og útvegað honum bestu mögulegu læknisþjónustu í þessum erfiðu veikindum. Þeir sýna þarna hvaða mann þeir hafa að geyma.

Nú hafa þeir sett af stað söfnun til að létta Abel þá fjárhagslegu byrði sem svona erfiður sjúkdómur orsakar. Framundan er stærsta og mikilvægasta barátta Abels sem hann þarf að berjast í fjarri heimahögum.

Nú gefst okkur sem stundum knattspyrnu á Íslandi frábært tækifæri til að styðja góðan dreng í þessari baráttu. Við getum sýnt að þegar að á reynir stöndum við saman og erum öll í sama liði.

Okkur í meistaraflokki Grindavíkur langar að styðja Abel og vini okkar í Vestmannaeyjum sem standa fyrir þessu frábæra framtaki og leggja inn á reikning þeirra sektarsjóð okkar. Þar sem að sjóðurinn okkar er nú ekki í hæstu hæðum bættu allir sem koma að meistaraflokknum 1500 krónum í hann.

Það er ekki meining okkar að auglýsa einhvern smástyrk frá okkur heldur leggja til að öll meistaraflokks lið á Íslandi geri hið sama. Þannig gæti safnast smá upphæð sem kæmi sér vel fyrir Abel.

Með von um góð viðbrögð
Meistaraflokkur Grindavíkur.