Nýjast á Local Suðurnes

Íbúakosning vegna deiliskipulagsmála í Helguvík verður í lok nóvember

Rafræn íbúakosning vegna breytinga á deiliskipulagi í Helguvík mun fara fram dagana 24. nóvember til 4. desember næstkomandi. Þetta var ákveðið á fundi bæjarráðs þann 15. október síðastliðinn. Kosningin mun fara fram í samstarfi við Þjóðskrá á vefnum Island.is og er um að ræða tilraunaverkefni á vegum stofnunarinnar.

Á bæjarráðsfundinum var samþykkt að eftirfarandi spurning verði lögð fyrir íbúa Reykjanesbæjar í íbúakosningunni:

Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) þeirri breytingu sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti 2. júní 2015, á deiliskipulagi í Helguvík vegna fyrirhugaðs kísilvers?

Hlynnt(ur)
Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)
Andvíg(ur)

Rúmlega 25% íbúa settu nafn sitt á undirskriftarlista varðandi skipulagbreytingar í Helguvík og náðu þannig 25% lágmarki sem Reykjanesbær gerir kröfu um vegna íbúakosninga. Bæjarstjórn hefur sem kunnugt er gefið það út að kosningin verði ekki bindandi og muni ekki hafa áhrif á ákvarðanir sveitarfélagsins varðandi skipulag og framkvæmdarleyfi fyrir kísilver Thorsil sem fyrirhugað er að reisa í Helguvík.