Nýjast á Local Suðurnes

Fjárfestar hafa fengið um 800 milljónir til baka af fjárfestingu í HS Veitum

HS Veitur eru með starfsemi á mörgum stöðum á suðvesturhorni landsins

HSV ehf., einkahlutafélag í eigu Heiðars Más Guðjónssonar fjárfestis og nokkura lífeyrissjóða hefur fengið um 800 milljónir króna til baka af um 3 milljarða fjárfestingu í HS Veitum á tveimur árum. Reykjanesbær á um helmingshlut í HS Veitum og tók um milljarð af fénu til sín í fyrra og fær um 250 milljónir króna í ár.

HS Veitur keypti hlutabréf af eigendum sínum fyrir 2,5 milljarða króna á síðasta ári og lækkaði í kjölfarið hlutafé fyrirtækisins, í ár mun fyrirtækið kaupa hlutabréf fyrir hálfan milljarð króna. Kjarninn greinir frá því að með því að fara þessa leið við að greiða hluthöfum sínum arð, þ.e., með því að lækka hlutafé samhliða kaupum af hluthöfum félagsins, í stað þess að greiða út arð koma hluthafar HS Veitna sér undan skattgreiðslum vegna arðgreiðslna, en ef bókfært verð hlutabréfa er hærra eða það sama og söluverðið verður ekki til skattskyldur söluhagnaður. Af arðgreiðslum þarf hins vegar að greiða 20 prósenta fjármagnstekjuskatt.

HSV ehf. hefur átt 34% hlut í HS Veitum í tvö ár en hann var keyptur árið 2014 á um 3 milljarða króna, við kaupin sagði Heiðar Guðjónssson, fjárfestir, að akoma fjárfesta að fyrirtækinu kæmi sér vel fyrir almenning, en fyrirtækið hefur eins og fyrr segir fengið um 800 milljónir króna til baka af fjárfestingu sinni án þess að greiða 20% fjármagnstekjuskatt af þeirri upphæð.

“Aðkoma slíkra aðila [innsk. blm: fjárfesta] tryggir frekar eign almennings á innviðum samfélagsins. Það er okkur sönn ánægja að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu félagsins og traustri þjónustu þess við viðskiptavini þess.” Sagði Heiðar við kaupin.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Veitna segir ákveðið í hvert skipti fyrir sig hvaða leið sé farin í þessum efnum og að fyrir fyrirtækið breyti þetta litlu máli.

„Menn lækka eigið fé með því að borga arð eða kaupa eigin bréf. Það kemur út á eitt fyrir fyrirtækið, en ekki fyrir hluthafana. Þetta er sín leiðin hvor til þess að hluthafar fái eitthvað fyrir sína eign,“ segir Júlíus Jónasson forstjóri HS Veitna í samtali við Vísi.is.