Nýjast á Local Suðurnes

Forvalsmálið frá A-Ö: Hefur kostað Kaffitár og Isavia milljónir króna

Rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, Isavia ohf., afhenti Kaffitári á dögunum gögn vegna forvals á verslunar- og veitngaaðstöðu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sem fram fór snemma árs 2014. Isavia Ohf. sem er 100% í eigu ríkisins var stofnað árið 2010 og rekur alla flugvelli og flugleiðsöguþjónustu landsins. Kaffitár ehf. var stofnað árið 1990 og rekur nokkur kaffihús á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ. Fyrirtækið rak til skamms tíma kaffihús og veitingasölu í Leifsstöð.

Kaffitár var á meðal þátttakenda í áðurnefndu forvali, en fyrirtækið varð ekki fyrir valinu og var tveimur veitingastöðum fyrirtækisins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar lokað í janúar 2015, þegar samningur fyrirtækisins við Isavia rann út. Forsvarsmönnum Kaffitárs þótti að fyrirtækinu vegið og óskuðu í kjölfarið eftir gögnum um forvalið.

Isavia rekur alla flugvelli landsins

Isavia rekur alla flugvelli landsins

Isavia neitar að afhenda gögn vegna loforða um trúnað

Kaffitár óskaði eftir gögnum um forvalið í ágúst 2014. Í september 2014 hafnaði Isavia beiðni Kaffitárs um að afhenda umbeðin gögn, þar sem fyritækið mæti stöðuna þannig að umbeðin gögn vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þátttakenda í forvalinu, enda hafi fyrirtækið tekið fram í gögnum forvalsins að þátttakendum hafi verið lofað fullum trúnaði um gögn forvalsins. Í tilkynningu sem Isavia sendi frá sér vegna málsins kemur fram að allir þátttakendur í forvalinu hafi samþykkt fyrirkomulagið.

Þetta sættu stjórnendur Kaffitárs sig ekki við og kærði fyrirtækið þessa ákvörðun í október 2014 til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Allir dómar og úrskurðir hafa fallið Kaffitári í vil

Í málarekstri Kaffitárs gegn Isavia ohf. hafa sjö dómar eða úrskurðir fallið, nú síðast í júní síðastliðnum úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að Isavia bæri að afhenda Kaffitár gögnin. Í öllum tilfellum hefur kröfum eða málatilbúnaði Isavia verið hafnað og hefur fyrirtækið verið dæmt til að greiða málskostnað Kaffitárs að hluta.

Dóma og úrskurði sem tengjast málum fyrirtækjanna má finna á vefsvæðum Úrskurðarnefndar um upplýsingamál, Héraðsdóms Reykjaness, Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur.

Verksmiðja Kaffitárs í Reykjanesbæ

Verksmiðja Kaffitárs í Reykjanesbæ

Gögnin afhent – Samkeppniseftirlitið skerst í leikinn

Samkeppniseftirlitið sendi aðilum málsins bréf þann 8. júlí síðastliðinn. Þar kom fram að gögnin innihéldu það viðkvæmar upplýsingar að afhending þeirra gæti falið í sér brot á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið mælti því með því að fyrirtækin leituðu sátta, þrátt fyrir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu.

Svo fór að Isavia afhenti gögnin þann 15. júlí síðastliðinn. Í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér í kjölfarið kemur fram að fyrirtækið hafi sent gögnin frá sér þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi varað við því að Isavia gæti gerst brotlegt við samkeppnislög með afhendingu gagnanna, samkvæmt tilkynningunni taldi fyrirtækið sér ekki annað stætt en að verða við úrskurði héraðsdóms.

Þá segir í tilkynningunni að fyrirtækið hafi ekki haft neinna hagsmuna að gæta í málinu, annarra en þeirra að fara eftir lögum og eðlilegum viðskiptaháttum.

“Gögnin sem um ræðir snúast ekki um Isavia heldur um fyrirtæki sem tóku þátt í samkeppni um veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Isavia hefur ekki haft neinna hagsmuna að gæta í málinu, annarra en þeirra að fara eftir lögum og eðlilegum viðskiptaháttum. Niðurstaða forvalsins var eingöngu byggð á viðskiptalegum forsendum.” Segir í tilkynningu Isavia.

Málið hefur kostað fyrirtækin milljónir króna

Lögfræðikostnaður fyrirtækjanna stendur í milljónum króna, Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs, sagði í viðtali við DV.is um miðjan júní að kostnaður fyrirtækisins vegna lögfræðiþjónustu næmi 5,6 milljónum króna, þá væri ótalin sú vinna og tími sem stjórnendur fyrirtækisins hafi lagt í málið. Fyrirtækið stofnaði bakarí og var stærð þess meðal annars ákveðin með viðskiptin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í huga.

„Áður en umsókn okkar um pláss í flugstöðinni var hafnað vorum við svo bjartsýn að við stofnuðum bakarí, Kruðerí, en tekjur þess drógust náttúrulega saman um 50% þegar við fórum úr Leifsstöð.” Segir Aðalheiður í viðtalinu við DV.is.

Ekki fengust svör um kostnað Isavia vegna málsins, þegar eftir þeim var leitað, en gera má ráð fyrir að lögfræðikostnaður fyrirtækisins sé engu minni en Kaffitárs, þá hefur fyrirtækið að minnsta kosti tvisvar sinnum verið dæmt til að greiða málskostnað Kaffitárs, fyrir héraðsdómi og hæstarétti, samtals að upphæð 1.350.000 krónur.

Málinu ekki lokið þó gögnin hafi verið afhent

Málinu virðist þó hvergi nærri lokið, en Vísir.is greindi frá því að Kaffitár skoðaði möguleika á að fara í skaðabótamál við Isavia ef mikill meinbugur væri á stigagjöf í forvalinu og gögnunum. Kaffitár er ekki eina fyrirtækið sem íhugar skaðabótamál, samkvæmt Vísi eru að minnsta kosti tvö önnur fyrirtæki sem íhuga skaðabótamál gegn Isavia og þá vegna tjóns sem afhending gagnanna til Kaffitárs kann að hafa í för með sér, en Isavia hafði heitið trúnaði um þau gögn sem fyrirtæki skiluðu inn.

Hér fyrir neðan er að finna tengla á fyrri umfjallanir Suðurnes.net um málið:

Kaffitár íhugar að stefna Isavia vegna gagna

Isavia afhendir ekki gögn í Kaffitársmáli

Kaffitár óskar aðstoðar Sýslumanns

Hagnaður Kaffitárs lækkar mikið

Isavia hefur afhent gögn í forvalsmáli