Nýjast á Local Suðurnes

Viðskipti framkvæmdastjóra Kadeco rædd á stjórnarfundi – “Mikilvægt að skoða tímalínuna í þessu”

Viðkipti framkvæmdastjóra Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, Kjartans Eiríkssonar, verða rædd á stjórnarfundi félagsins í dag. Stjórn félagsins mun óska eftir upplýsingum um fjárfestingar félags í helmingseigu hans í fasteignum á Ásbrú

Fréttablaðið greindi frá því í dag að félög í eigu eða tengd viðskiptafélaga Kjartans hafa keypt þrjár fasteignir af Kadeco fyrir alls 150 milljónir króna á undanförnum misserum.

„Það er mikilvægt að skoða tímalínuna í þessu en þetta gerist allt áður en við stofnum til einhverra viðskipta saman. Við áttum engin tengsl fyrir þann tíma og hann [Sverrir] á hæstu boð í þessar eignir á þessum tíma og þetta eru eignir sem höfðu verið til sölu lengi og stóðu öllum til boða,“ segir Kjartan í samtali við Fréttablaðið.

Suðurnes.net hefur fjallað um viðskipti Sverrirs við Kadeco undanfarið, meðal annars um kaup Fasteignafélagsins Þórshamars ehf., sem var í eigu Sverris og dóttur hans, Sonju Sverrisdóttur, sem keypti 1.300 fermetra iðnaðarhúsnæði við Funatröð á Ásbrú á rétt rúmar 25.000 krónur fermeterinn, eða 35 milljónir króna í lok árs 2015. Eigninni fylgir tæplega 8.000 fermetra lóð. Eignin var auglýst skömmu síðar á um 80 milljónir króna og seld fljótlega eftir það.

Framkvæmdastjóri Kadeco segir við Fréttablaðið að hann hafi greint stjórnarformanni Kadeco frá fjárfestingum Airport City á Ásbrú í byrjun sumars eða um hálfu ári eftir að félagið var stofnað.