Nýjast á Local Suðurnes

Afskriftakóngur stórgræðir á viðskiptum við Kadeco

Funatröð 3 - Félag í eigu athafnamannsins Sverris Sverrissonar gerði góðan samning við Kadeco - Mynd: Google maps.

Félög tengd athafnamanninum Sverri Sverrissyni hafa keypt eignir af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, Kadeco, á óvenju lágum verðum undanfarin misseri. Fasteignafélagið Þórshamar ehf., sem var í eigu Sverris og dóttur hans, Sonju Sverrisdóttur keypti til að mynda 1.300 fermetra iðnaðarhúsnæði við Funatröð á Ásbrú á rétt rúmar 25.000 krónur fermeterinn, eða 35 milljónir króna í lok árs 2015. Eigninni fylgir tæplega 8.000 fermetra lóð.

Sverrir gerði fyrst til tilboð í eignina í september 2015, í nafni annars fyrirtækis, Sverrir Sverrirsson hf., og var því tilboði hafnað af stjórn Kadeco, en framkvæmdastjóra gert að leggja fram gagntilboð. Samkomulag náðist við Sverri um kaupverðið í október sama ár, eða á sama tíma og Fasteingafélagið Þórshamar var stofnað. Þrátt fyrir að Sverrir hafi, í nafni annara fyrirtækja, gert tilboð í fleiri eignir í eigu Kadeco var Funatröð 3 eina eign Þórshamars.

Skrifað var undir kaupsamning við Þórshamar þann 28. Desember 2015 og þann sama dag veitti Kadeco félagi Sverris veðleyfi fyrir um 80% af kaupverðinu. Eignin var fljótlega eftir afhendingu auglýst til sölu á 78 milljónir króna og seld, ásamt fasteignafélaginu, skömmu síðar. Gera má ráð fyrir að Sverrir hafi ásamt dóttur sinni hagnast um tugi milljóna króna, á um fjórum mánuðum, á þessum viðskiptum sínum við Kadeco.

Funatröð 3 var auglýst til sölu á 78 milljónir króna strax eftir að 35 milljóna króna kauptilboð Sverris Sverrissonar hf. var samþykkt

Sverrir Sverrisson og félög honum tengd voru áberandi á árunum í kringum hrun og í kringum fall Sparisjóðs Keflavíkur, að hluta til vegna viðskipta með eignir á Keflavíkurflugvelli. Þannig var Sverrir í eigendahópi Fasteignafélags Suðurnesja og Blikavalla 3, en samtals fengu þessi félög rúmlega hálfan milljarð króna afskrifaðan af skuldum sínum. Þá var Sverrir einn eigenda Miðlands ehf., en það fyrirtæki var yfirtekið af Landsbankanum eftir að hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart Sparisjóði Keflavíkur, sem einnig yfirtekinn var af Landsbankanum. Sverrir átti einnig hlut í Heiðbúum ehf., en við gjaldþrot þess fyrirtækis fékkst ekkert upp í um 2,2 milljarða kröfur.

Enn stórtækur í viðskiptum við Kadeco

Kaupandi Fasteignafélagsins Þórshamars og þar með Funatraðar 3, Bílaleiga Akureyrar, vildi ekki gefa upp kaupverðið, þegar eftir því var leitað, en fyrirtækið er með töluverða starfsemi á Suðurnesjum, en um 40 manns starfa hjá fyrirtækinu á svæðinu.

“Það passar, við erum rétt búnir að kaupa þessa fasteign þarna uppfrá ásamt lóðum, en kaupverðið er trúnaðarmál milli seljanda og okkar og því vil ég ekki gefa það upp.” sagði Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar.

“Starfsemi okkar á Suðurnesjunum er heilmikil, við erum með á sumrin þarna rétt um 40 starfsmenn í beinni vinnu fyrir okkur, og á veturnar eru þetta um 20 -25 manns.” Sagði Steingrímur einnig.

Sverrir Sverrisson er enn stórtækur í viðskiptum við Kadeco í gegnum hin ýmsu félög, bæði á eigin vegum og í samstarfi við aðra.

Stjórnarformaðurinn lítið inn í málum Kadeco

Rétt er að geta þess að ekki bárust svör frá forsvarsmönnum þróunarfélagsins við ítrekuðum fyrirspurnum, varðandi þetta eða önnur mál sem spurt var um og fjallað verður um á næstunni. Sigurður Kári Kristjánsson, stjórnarformaður Þróunarfélagsins, sagðist hins vegar í símtali við blaðamann lítið vera inni í daglegum rekstri fyrirtækisins og ætti því erfitt með að svara fyrir einstök viðskipti, sem sum hafi átt sér stað fyrir hans tíð. Þá er rétt að geta þess að kauptilboð Sverris vegna Funatraðar 3, voru að minnsta kosti tvívegis tekin fyrir á stjórnarfundum hjá Kadeco og áttu sér stað í tíð Sigurðar Kára sem stjórnaformanns.

Kaupsamningur Þórshamars og Kadeco.

Skilyrt veðleyfi sem Kadeco veitti félagi Sverris, en það gerði félagi Sverris og Sonju kleift að fjármagna kaupin með 80% láni.