Sameinað leigufélag tekur yfir 716 íbúðir á Ásbrú – Stefna á skráningu á markað

Leigufélagið Ásabyggð, á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurfluvelli, Ásbrú, sameinast Heimavöllum leigufélagi og mun sameinað félag undir merkjum Heimavalla hafa um tvö þúsund íbúðir í rekstri og stefnir félagið að skráningu á hlutabréfamarkað í lok næsta árs. Hið nýja sameinaða félag verður stærsta leigufélag landsins á almennum markaði.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, en þar segir einnig að Ásabyggð eigi 716 leiguíbúðir á Ásbrú. Íbúðirnar hafa verið leigðar námsmönnum hjá Keili auk þess að vera leigðar á almennum markaði.
Hlutafar Heimavalla eru 59, meðal annars fjárfestingarfélög, lífeyrissjóðir, tryggingafélög og einstaklingar. Við sameiningu félaganna er fyrirhugað að viðhalda núverandi samstarfi á Ásbrúarsvæðinu varðandi útleigu og þjónustu við viðskiptavini. Með tíð og tíma verða samstarfssamningar endurskoðaðir í ljósi þeirra breytinga sem verða á félaginu við sameiningu þess. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka er ráðgjafi eigenda Ásabyggðar í fyrirhuguðum samruna. Eftir viðskiptin bætast félögin Klasi fjárfesting hf., M75 ehf., Stotalækur ehf., Gani ehf. og Snæból ehf. í hluthafahóp Heimavalla.
Samanlögð heildarvelta Ásabyggðar og Heimavalla á fyrri helmingi þessa árs var um 960 milljónir króna. Sameinað félag mun eiga og reka yfir tvö þúsund leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, í Borgarnesi, á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ. Starfsmenn sameinaðs félags verða 16 talsins í 14,5 stöðugildum.