Lögregla mátti ekki skoða innihald síma sem grunur lék á að innihéldi nektarmyndir

Lögreglan á Suðurnesjum braut gegn friðhelgi einkalífs manns, sem grunur lék á að hefði nektarmyndir af fyrrverandi unnustu sinni vistaðar í síma sínum, með því að rannsaka efni farsíma hans án dómsúrskurðar. Maðurinn var handtekinn í síðasta mánuði grunaður um að hafa hótað að birta umræddar nektarmyndir sem unnustan fyrrverandi hafði sent honum. Lagt var hald á farsíma mannsins en hann neitaði að gefa upp aðgangsorð símans.
Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar, í dómnum kemur einnig fram að lögreglu hafi verið heimilt að haldleggja símann. Héraðsdómur Reykjaness hafði áður úrskurðað um að haldlagningu á farsíma mannsins yrði ekki aflétt en að lögreglu hafi verið heimilt að skoða efni símans án dómsúrskurðar.
Fyrrverandi unnusta mannsins kærði hann til lögreglu. Hún sagði að maðurinn hafi reglulega hótað henni að birta nektarmyndir af henni opinberlega. Þá hafi hann líka áreitt hana með margítrekuðum skilaboðasendingum. Hún sagði einnig að maðurinn hefði margsinnis gefið það til kynna að hann hefði þegar birt myndirnar á ýmsan hátt. Þá kemur fram að maðurinn hafi einnig stofnað bloggsíðu þar sem hann sagði frá vandræðalegum augnablikum í lífi konunnar.
Eins og áður segir var það mat Hæstaréttar að lögregla mætti leggja hald á síma mannsins án dómúrskurðar en mátti ekki rannsaka innihald hans. Því telur Hæstiréttur að rannsókn lögreglu á málinu sé að vissu leyti aðfinnsluverð.