Erlendir ferðamenn í vandræðum í myrkri – Óku lúshægt eftir Reykjanesbraut
Það getur verið snúið að vera ferðamaður á Íslandi, óvanur þeim aðstæðum sem hér eru ríkjandi. Til dæmis urðu lögreglumenn á Suðurnesjum varir við bifreið sem ekið var lúshægt eftir Reykjanesbrautinni að kvöldi dags í vikunni, segir í tilkynningu. Bifreiðin var ljóslaus en með blikkljósin kveikt. Þarna reyndist vera á ferðinni erlendur ferðamaður sem var í stökustu vandræðum með að rata til Reykjavíkur. Lögreglumenn leiðbeindu honum um hvernig hann ætti að nota ljósabúnaðinn á bifreiðinni og aðstoðuðu hann við að rata á hótel í Reykjavík.
Í öðru tilviki, einnig í vikunni, varð lögregla vör við skringilegt aksturslag bifreiðar sem einnig var á ferð á Reykjanesbraut upp úr miðnætti. Þar reyndist einnig vera erlendur ferðamaður undir stýri sem var óvanur að aka í myrkri og akstursmátinn því ekki alveg upp á það besta. En báðir komust þessir ferðalangar leiðar sinnar heilir á húfi, enda er það það sem mestu máli skiptir þegar upp er staðið.