Til stóð að loka kísilveri United Silicon

Forsvarsmönnum United Silicon var tilkynnt bréflega, af Umhverfisstofnun, á miðvikudaginn fyrir páska að ekki yrði hjá því komist að loka kísilverinu vegna þess að frá því streymdi fjöldi efna sem gætu haft langtímaáhrif á heilsufar fólks. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.
Eldur kom upp í kísilveri United Silcon aðfaranótt þriðjudags og liggur framleiðsla nú niðri, en ekki liggur fyrir hversu lengi sú stöðvun mun vara.
Mbl.is greinir frá því að vegna brunans þurfti að fresta komu norskra sérfræðinga í kísilverið um einn dag en þeir hyggjast rannsaka starfsemina og reyna að finna út úr því hvernig hægt er að koma í veg fyrir lyktarmengun sem leggst yfir nágrennið þegar kveikt er á brennsluofnunum.