Nýjast á Local Suðurnes

Stefnt á að öll hverfi verði tengd Ljósleiðaranum árið 2021

Gagnaveita Reykjavíkur og Reykjanesbær gerðu í dag með sér samkomulag um ljósleiðaravæðingu í bænum. Þeir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Gagnaveitu Reykjavíkur skrifuðu undir viljayfirlýsingu þessa efnis. Samkvæmt henni stefnir Gagnaveita Reykjavíkur að því að ljúka tengingu við Ljósleiðarann í öllum hverfum fyrir árslok 2021.

Reykjanesbær er í miklum vexti og er nú fimmta fjölmennasta sveitarfélag landsins með um 18.000 íbúa. Þetta kallar á mikla uppbyggingu og sveitarfélagið gengst fyrir Framkvæmdaþingi mánudaginn 9. apríl í Hljómahöll. Verkefni Ljósleiðarans verður á meðal framkvæmdanna sem þar verða kynntar.

Íbúar í Reykjanesbæ geta  haft áhrif á í hvaða röð hverfi og byggðarkjarnar verða tengdir Ljósleiðaranum. Það gera þeir með því að lýsa yfir vilja til að tengjast Ljósleiðaranum á sérstakri síðu á vef hans. Með því að smella á tengil opnast heimasíða vefjarnins.

Samhliða samkomulaginu við Reykjanesbæ hefur Gagnaveita Reykjavíkur auglýst eftir samstarfsaðilum. Samstarfið getur verið meðal annars:

  • að selja GR fjarskiptalagnir sem fyrir eru í sveitarfélaginu og nýst geta við ljósleiðaravæðinguna, eða
  • með samnýtingu framkvæmda með öðrum veitufyrirtækjum, fjarskiptafyrirtækjum eða sveitarfélaginu sjálfu

Gagnaveita Reykjavíkur auglýsir eftir samstarfsaðilum í þessa veru. Áhugasamir geta smellt á þennan tengil til að kynna sér málið.

Heimilum í þessum byggðarkjörnum mun standa til boða Eitt gíg gæðasamband Ljósleiðarans. Hann gefur kost á 1000 megabitum bæði til og frá heimili.

Flest stærstu fjarskipta- og afþreyingarfyrirtæki landsins bjóða þjónustu sína um Ljósleiðarann. Viðskiptavinum stendur til boða val á milli fjölmargra þjónustuleiða Vodafone, Nova, 365, Hringdu og Hringiðunnar.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar fagnar komu Ljósleiðarans. „Ljósleiðarinn mun ekki einungis færa heimilum bæjarins öflugt netsamband. Hann mun einnig eiga þátt í því að smyrja hjól atvinnulífsins með því að styrkja stoðir nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Reykjanesbæjar bíður björt framtíð og enn frekar með traustum innviðum,“ segir Kjartan Már.

Þessi tenging íbúa í sveitarfélaginu við opið net Ljósleiðarans styður við markmið stjórnvalda um ljósleiðaravæðingu alls Íslands. Verkefnið í Reykjanesbæ er alfarið á viðskiptalegum forsendum og ekki er sótt um ríkisstyrki vegna hennar.