Nýjast á Local Suðurnes

Landsvirkjun og Thorsil undirrita samninga um afhendingu á rafmagni

Landsvirkjun og Thorsil hafa skrifað undir samning um afhendingu á rafmagni til kísilvers Thorsil í Helguvík í Reykjanesbæ. Um er að ræða allt að 55 megavött af afli eða sem samsvarar 460 gígavattstundum af orku á ári. Afhending hefst árið 2018 þegar ráðgert er að gangsetja kísilverið.

Orkan verður afhent í áföngum úr núverandi aflstöðvakerfi Landsvirkjunar. Sem kunnugt er hefur fyrirtækið nú tvær virkjanir í byggingu, stækkun Búrfellsvirkjunar og jarðvarmavirkjun að Þeistareykjum.

Samningurinn er háður tilteknum skilyrðum og þarf meðal annars að hljóta samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til þess að öðlast fullnaðargildi.

Kísilver Thorsil mun framleiða um 54.000 tonn af kísilmálmi á ári og nota til þess 87 MW af raforku, eða um 730 GWst á ári. Um 130 starfsmenn munu starfa hjá verksmiðjunni.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,  sagði við undirritunina að verkefni Thorsil væri kærkomin viðbót við uppbygginuna í Reykjanesbæ.

„Það er ánægjulegt að bjóða Thorsil velkomið í raforkuviðskipti við Landsvirkjun. Verkefni Thorsil í Helguvík er kærkomin viðbót við þá uppbyggingu iðnfyrirtækja sem á sér stað í Reykjanesbæ. Samningurinn er hagstæður fyrir báða aðila og í samræmi við þá stefnu Landsvirkjunar að fá hagstætt verð fyrir þá endurnýjanlegu orku sem byggir á auðlindum okkar Íslendinga.“

Og John Fenger, stjórnarformaður Thorsil gleðst yfir því að eiga kost á umhverfisvænni orku til framleiðslunnar.

„Undirritun þessa samnings við Landsvirkjun er lokaskrefið í vönduðu undirbúningsferli þessa verkefnis. Með þessum samningi hefur Thorsil tryggt alla orkuþörf kisilvers síns í Helguvík. Við fögnum samstarfinu við Landsvirkjun og  gleðjumst yfir því að eiga kost á umhverfisvænni orku til að framleiða kísilmálm sem nýttur verður til að draga úr áhrifum umsvifa mannsins á umhverfið. “