Nýjast á Local Suðurnes

Hagnaður Kadeco 134 milljónir á síðasta ári – 60% af húsnæði á Ásbrú selt

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, hagnaðist um tæplega 134 milljónir króna árið 2014, félagið  fær þóknunartekjur úr ríkissjóði á móti útlögð­um kostnaði þess við þau verkefni sem því eru falin samkvæmt þjónustusamningi við fjármálaráðuneytið.

Þóknunartekjur félagsins frá ríkissjóði fyrir árið 2014 voru um 565 milljónir króna. Einnig fær félagið tekjur af lóðaleigu og útleigu húsnæðis á starfssvæði sínu.

Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsliða námu 639 milljónum króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 74,4 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða var hagnaður félagsins 179,1 milljón króna.

Hagnaður ársins eftir reiknaða skatta nam 133,6 milljónum króna. Heildareignir félagsins voru bókfærðar á tæpa 9 milljarða króna. Skuldir félagsins námu 8,2 milljörðum króna. Eigið fé félagsins nam 782 milljónum króna í árslok.

60% af húsnæði selt

Við brottför varnarliðsins árið 2006 var Kadeco stofnað og er hlutverk fyrirtækisins meðal annars að sjá um rekstur, umsýslu, umsjón og eftirlit með öllum eignum ríkissjóðs á gamla varnarliðssvæðinu samkvæmt sérstökum þjónustusamningi.

Fyrirtækið hafði því í upphafi til umráða fyrir hönd ríkissjóðs tæplega 348.405 fermetra af húsnæði, þar af 212 þúsund fermetra af íbúðahúsnæði. Heildarfjöldi íbúða var um 2.000, þar af um 900 hefðbundnar fjölskylduíbúðir og 1.100 einstaklingsíbúðir. Í árslok 2014 hafði um 67% eigna verið komið í nýtingu, þar af höfðu um 60% verið seld frá félaginu og 7,5% voru í útleigu.