Nýjast á Local Suðurnes

Sorpeyðingarstöð tapaði rúmlega milljón á síðasta ári

Ársreikningur Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja fyrir árið 2015 var lagður fram til afgreiðslu, á fundi stjórnar fyrirtækisins. Einnig var lögð fram endurskoðunarskýrsla.

Heildarrekstrartekjur fyrirtækisins námu tæplega 514 milljónum króna. Rekstrargjöld án afskrifta og fjármagnsgjalda námu rúmlega 418 milljónum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) nam þannig rúmlega 95 milljónum króna. Heildartap ársins eftir afskriftir og fjármagnsgjöld nemur tæplega 1,3 milljón króna samanborið við 28 milljón króna hagnað árið 2014.

Í fundargerð stjórnar kemur fram að helsta skýringin á verri afkomu felist í auknum afskriftum í kjölfar sérstaks endurmats á brennsluofni félagsins sem framkvæmd var í árslok 2014. Afskriftir námu tæplega 51 milljón króna, sem er 12,5 milljónum króna hærra en á fyrra ári.

Í árslok 2015 námu heildareignir félagsins rúmlega 1.105 milljónum króna en skuldir og skuldbindingar námu rúmum 834 milljónum króna. Eigið fé er tæplega 271 milljónir króna og nú er eiginfjárhlutfall félagsins 24,51%, samanborið við 24,53% í árslok 2014.