Nýjast á Local Suðurnes

Lífeyrissjóðir vildu semja – Töldu stöðuna mun betri en gefið hefur verið í skyn

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað á fundi sínum í gær að tilkynna að ekki næðist samkomulag við kröfuhafa til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Umræða um málið stóð í um þrjár klukkustundir og kom fram í máli meirhluta bæjarstjórnar að óvíst væri hvað myndi gerast í málefnum sveitarfélagsins í framhaldinu.

Einnig kom fram á fundinum að svar sem barst frá lífeyrissjóðunum, fyrir fundinn, þætti taka af allan vafa um að sjóðirnir væru ekki til í að halda samningum áfram – að mati meirihlutans – þ.e.a.s sjóðirnir myndu ekki fallast á sömu skilmála og aðrir kröfuhafar.

Þessari túlkun var minnihluti Sjálfstæðismanna ekki sammála, Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfsstæðisflokks sagði í samtali við Suðurnes.net að bréf frá fulltrúum lífeyrissjóðanna hafi legið fyrir, bréfið sem sent var til bæjarfélagsins aðeins nokkrum klukkustundum fyrir bæjarstjórnarfund sýnir að fullur vilji væri af hálfu sjóðanna til samninga.

“Í bréfinu fara þeir yfir hvernig staða Reykjanesbæjar er mun betri en meirihlutinn hefur gefið í skyn bæði í umræðum og framlögðum áætlunum bæjarins og hvernig þeir í þremur liðum geta hugsað sér skilmálabreytingar skuldabréfanna sem um ræðir.

Í undirrituðu bréfi vilja þeir ræða endurskoðun á endurgreiðslutíma og endurgreiðsluferli, endurskoðun á vaxtakjörum og aðrar leiðir eftir að búið sé að greina kosti og galla leiða til að lækka greiðslubyrði Reykjaneshafnar. Um þetta þarf að ræða og því algjörlega ótímabært að gefast upp og hætta viðræðum.” Segir Böðvar.

Ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2015, sem var einnig til umræðu á fundinum sýnir að tekjur bæjarfélagsins hafa vaxið gríðarlega. Um leið sést að tekist hefur að takmarka vöxt útgjalda þannig að tekjuaukningin nýtist vel til niðurgreiðslu skulda. Þá bendir Böðvar á að fyrstu tölur þessa árs sýni að enn verður vöxtur í tekjum.

“Tækifærin hér eru endalaus, mikil uppbygging atvinnulífs, fjölgun íbúa, atvinnuleysi er að minnka, útgjöld sveitarfélagsins vegna atvinnulausra fer hríðlækkandi og varla er til sú sviðsmynd sem ekki sýnir mikinn uppgang og jákvæða þróun í Reykjanesbæ. Þetta sjá allir sem vilja.

Um leið og þetta er sagt er skuldavandinn líka til staðar og við þurfum að vinna á honum. Vissulega þurfum við að ná samningum við kröfuhafa okkar um ýmsar breytingar á lánakjörum og helst um niðurskriftir eða leiðréttingar á höfuðstól. Til þess höfum við nægan tíma og því teljum við að meirihlutinn hafi gefist upp á þessum viðræðum allt of snemma.” Sagði Böðvar.