Stefan Bonneau átti fína spretti – Formaðurinn í búningavandræðum

B-lið Njarðvíkinga tók á móti Íþróttafélagi Breiðholts í toppslag annarar deildar Íslandsmótsins í körfuknattleik í kvöld, leikurinn var merkilegur fyrir þær sakir að Bandaríkjamaðurinn Stefan Bonneau lék sinn fyrsta leik á þessu tímabili, auk þess sem bræðurnir Teitur og Gunnar Örlygssynir léku nokkrar mínútur með liðinu og er óhætt að segja að þremenningarnir hafi átt flotta spretti og ljóst að Bonneau er allur að koma til þó óvíst sé hvort hann nái að leika með aðalliði Njarðvíkinga á þessu tímabili.
Vangaveltur voru um það fyrir leikinn í herbúðum Njarðvíkinga hvort félagið ætti til búning í réttri stærð á formanninn, Gunnar Örlygsson, svo reyndist ekki vera en málunum var kippt í liðinn eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni (Gunnar er lengst til hægri í örlítið ljósari búning en aðrir leikmenn liðsins). Það er rétt að taka það fram að Gunnar átti skínandi góðan leik, sérstaklega varnarlega þar sem hann tók nokkur fráköst og varði eitt skot meistaralega.
Leikurinn sem fram fór í Ljónagryfjunni var jafn og spennandi en Njarðvíkingar höfðu þó yfirhöndina allan tímann og höfðu að lokum 9 stiga sigur, 87-78. Liðið sem er að mestu skipað gömlum kempum úr körfuboltanum í Njarðvík hefur leikið einstaklega vel á tímabilinu og einungis tapað tveimur leikjum, einum í deildinni og leik gegn úrvalsdeildarliði Keflavíkur í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar.