Nýjast á Local Suðurnes

Bæjarfulltrúar þiggja ekki laun í ferð til Trollhättan

Sex fulltrúar munu fara á vegum Reykjanesbæjar til Trollhättan í Svíþjóð og vera þar viðstaddir hátíðarhöld í tilefni af aldarafmæli bæjarins, þá verður á sama tíma haldið vinabæjamót og vinnufundir. Reykjanesbær mun greiða fyrir flug, bílaleigubíla og útlagðan kostnað fyrir sexmenningana en fjárhagsáætlun bæjarins gerir ráð fyrir að kostnaður sveitarfélagsins vegna þessa muni nema einni milljón króna.

Töluverð umræða hefur myndast á samfélagsmiðlunum um ferðina, en margir telja að verið sé að forgangsraða hlutum á rangan hátt og að verið sé að stofna til óþarfa kostnaðar fyrir sveitarfélag í kröggum. Þá eru aðrir sem benda á að þegar sé búið að gera ráð fyrir ferðinni í áætlunum ársins 2016, auk þess sem það sé sjálfssögð kurteisi að senda fulltrúa á aldarafmæli vinabæjar.

Þiggja ekki laun en fá húsaskjól og fæði

Formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, Friðjón Einarsson, blandaði sér í umræðuna á samfélagsmiðlunum og svaraði þeirri gagnrýni sem þar kom fram, hann sagðist meðal annars ekki þiggja laun á meðan á heimsókninni stæði og það sama ætti við um aðra bæjarfulltrúa.

“Ég er einn þeirra sem fer í þessa ferð og geri það vegna þess að við viljum vera áfram í þessu vinabæjarsamstarfi. Geri mér grein fyrir því að ekki eru allir sammála og þannig verður það að vera. En bara til gamans, þá er ég launalaus í þessari ferð en fæ mat og gistingu auk flugs borgað.” Sagði í svari Friðjóns.

Þá sagði hann einnig að það væri ekki algengt að fólk færi launalaust í svona ferðir og að þeir starfsmenn Reykjanesbæjar sem væru með í för myndu halda fyrirlestra og sækja fundi.

“Held að það sé ekki algengt að einstaklingar fari í ferð fyrir sitt bæjarfélag eða fyrirtæki launalausir en það gildir einnig um hina 2 bæjarfulltrúana. 3 starfsmenn RNB munu halda fyrirlestra á vinnufundum, hver á sínu sviði.” Sagði Friðjón.

Vinabæjarsamstarf mikilvægt – Hátt í 800 ungmenni notið góðs af samstarfi

Reykjanesbær hefur að jafnaði sent 14 unlglinga á aldrinum 14-16 ára í vinarbæjarheimsóknir á hverju ári og er jöfn þátttaka frá báðum kynjum þ.e. 7 stúlkur og 7 strákar. Í ár mun Reykjanesbær senda 9 stúlkur og 9 drengi á knattspyrnumót ungmenna í Kerava í Finnlandi, með í för verða þrír embættismenn sem munu funda um sameiginleg mál tengd íþróttum.

Íþrótta- og tómstundaráð ræddi málefni vinabæja á fundi sínum í september síðastlinum og þar kom fram að frá árinu 1973 hafi tæplega 800 ungmenni farið á í heimsóknir til vinabæja á vegum Reykjanesbæjar.

Þá kom fram á fundinum í september að ÍT-ráð Reykjanesbæjar telji mikilvægt að halda þessu samstarfi áfram og leggur mikla áherslu á að gert verði ráð fyrir áframhaldandi vinabæjarsamstarfi í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2016.