Nýjast á Local Suðurnes

Um 500 manns starfa nú í Auðlindagarði HS Orku

Tekjur Auðlindagarðsins námu um 1% af vergri landsframleiðslu árið 2013

Auðlindagarðurinn sem byggst hefur upp í grennd við jarðvarmaver HS Orku á Suðurnesjum er einstakur á heimsvísu. Fyrirtækin innan garðsins nýta öll auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku, strauma sem hefðu annars farið til spillis. HS Orka, HS Veitur, Bláa Lónið, Carbon Recycling International og Stolt Sea Farm Iceland eru á meðal þeirra fyrirtækja sem heyra undir garðinn.

Tekjur Auðlindagarðsins námu um 20,5 milljörðum króna árið 2013 eða um 1% af vergri landsframleiðslu, til samanburðar nam framlag fiskveiða um 5,5% af landsframleiðslu og álframleiðslu um 2,3% árið 2013.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem GAMMA ráðgjöf vann fyrir HS Orku og Bláa Lónið um Auðlindagarðinn á Reykjanesi og var kynnt á ráðstefnu í Hörpu nýlega. Á ráðstefnunni var fjallað um framlag Auðlindagarðsins til verðmætasköpunar, landsframleiðslu og áhrif á atvinnustarfsemi á Suðurnesjum.

Auðlindagarðurinn sem byggst hefur upp í grennd við jarðvarmaver HS Orku á Suðurnesjum er einstakur á heimsvísu. Fyrirtækin innan garðsins nýta öll auðlindastrauma frá jarðvarmaverum HS Orku, strauma sem hefðu annars farið til spillis.

Albert Albertsson fyrrverandi aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja er hugmyndasmiðurinn að að Auðlindagarði HS Orku en þar hefur í tuttugu ár verið unnið eftir kjörorðinu „Samfélag án sóunar“. Í því felst að nýta beri allar þær auðlindir sem streyma inn og út úr garðinum til fullnustu og á sem ábyrgastan hátt.