Nýjast á Local Suðurnes

Uppselt á Maus í Hljómahöll

Uppselt er á tónleika Hljómsveitarinnar Maus, sem haldnir verða í Stapa þann 16. nóvember næstkomandi. Um er að ræða tónleika í tónleikaröðinni Trúnó, en ýmsar vel þekktar hljómsveitir hafa komið fram undanfarnar vikur.

Hljómsveitin fagnar um þessar mundir 20 ára afmæli plötunnar Lof mér að falla að þínu eyra og fyrir stuttu var tilkynnt að sveitin hyggðist koma aftur saman á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves til að fagna afmæli plötunnar og í framhaldinu þáði sveitin boð um að taka þátt í Trúnó.

Platan Lof mér að falla að þínu eyra inniheldur meðal annars lögin Kristalnótt, 90 krónu Perla, Poppaldin, Égímeilaðig og Ungfrú Orðadrepir. Roger O’ Donnell hljómborðsleikari The Cure spilaði í átta lögum á plötunni og söngkonan Lena Viderö á einnig gesta innkomu í einu lagi.

Maus var stofnuð í Reykjavík árið 1993 og vann Músíktilraunir árið 1994. Sveitin varð gríðarvinsæl næstu ár á eftir bæði á tónleikum og útgáfu. Hljómsveitina skipa þeir Birgir Örn Steinarsson(söngur,gítar), Daníel Þorsteinsson (trommur),Eggert Gíslason (bassi) og  Páll Ragnar Pálsson (gítar). Árið 1998 var Maus valin Hljómsveit Ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum.