Byggja 6000 fermetra hundagerði
Hvutti, félag hundaeigenda á Suðurnesjum, mun á næstu misserum hefja framkvæmdir við stórt hundagerði í Reykjanesbæ. Um er að ræða allt að 6.000 fermetra svæði aftan við Reykjaneshöll.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins sem sjá má í heild hér fyrir neðan:
Félagið er nú að ráðast í það stóra verkefni að útbúa gott hundagerði fyrir lausagöngu hunda. Það hefur tilfinnanlega vantað gott svæði þar sem bestu vinir okkar geta hlaupið um frjálsir og óheftir. Reykjanesbær hefur sýnt félaginu þann velvilja að leggja því til land, um 6.000 m2, við æfingasvæði Njarðvíkur bak við Reykjaneshöllina.
Hvutti mun nú leggja sig fram um að byggja upp gott og stórt aflokað gerði. Svæðið er vel staðsett innan bæjarfélagsins og er öll aðkoma að því mjög góð og gnægð bílastæða. Það er stór draumur um að svæðið verði með fjölbreyttum leiktækjum fyrir bæði tví- og ferfætlinga, lýsingu á svæðinu og góð skýli þar sem fólk getur setið til skjóls fyrir veðri og vindum. Göngustígar verða gegnum grassvæði sem verður með litlum hæðum og hólum.
Þetta eru töluverðar framkvæmdir og kosta þær líka skildinginn og þyggur félagið alla þá aðstoð sem býðst til að hundagerðið geti orðið að virkilega aðlaðandi stað til að vera á með vinunum í frjálsum leik. Teikningar af svæðinu eru tilbúnar og verða kynntar á nýju ári.
Hjólastólaaðgengi verður haft gott svo að sem flestir geti notið svæðisins með sínum bestu vinum.