Nýjast á Local Suðurnes

Uppbyggingarsjóður styrkir skönnun á 15 þúsund blaðsíðum Víkurfrétta

Verkefni Víkurfrétta ehf., sem lýtur að skönnun á prentútgáfu Víkurfrétta frá árinu 1980 til 2003, fær styrk að upphæð 1,2 milljónir króna frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Verkefnið telur 15 þúsund blaðsíður hið minnsta og er vinnan því nokkuð tímafrek. Á vef þessa stærsta héraðsfréttablaðs landsins kemur fram að ætlunin sé að setja blöðin á vefinn Tímarit.is þar sem allir geta haft aðgang að blöðunum. Páll Ketilsson stýrir verkefninu fyrir hönd Víkurfrétta.

Víkurfréttir hafa verið öflugur miðill Suðurnesjamanna undanfarna áratugi og verður fengur að geta nálgast eldri tölublöð Víkurfrétta á veraldarvefnum. Tímarit.is er stafrænt safn sem veitir aðgang að milljónum myndaðra blaðsíðna á stafrænu formi af þeim prentaða menningararfi sem varðveittur er í blöðum og tímaritum frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Aðgangur er öllum opinn og stuðst er við nýjustu tækni í geymslu og miðlun upplýsinga.

Á vef Víkurfrétta kemur einnig fram að 27 önnur verkefni hafi fengið styrk úr sjóðnum að þessu sinni.