Nýjast á Local Suðurnes

Ásmundur ekki bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokks

Orðrómur hefur verið á sveimi manna á milli undanfarið um að Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, væri bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir komandi kosningar. Í samtali við Mannlíf sagðist Ásmundur, léttur í bragði, vona að orðrómurinn væri á rökum reistur á meðan fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu svo ekki vera.

„Veistu hvað, það eru alltaf svo skemmtilegir hlutir að gerast í kringum mig, ég bara vona að það sé eitthvað til í þessu. Því miður hefur enginn haft samband við mig en ég vona bara að þetta sé hárrétt,“ sagði Ásmundur við blaðamann Mannlífs.

„Þetta er bara fyndið. Það var einhver Samfylkingamanneskja sem er ekki einu sinni í framboði sem setti þetta fram og sagði að við værum ekki að neita því. En við erum bara ekki að svara einhverri fullyrðingu frá manneskju sem er ekki einu sinni vinur okkar á Facebook sko. En sko, svarið er nei, við erum ekki með bæjastjóraefni, punktur. Þetta er ekki einu sinni diplómatískt svar, þetta er bara okkar svar. Við erum í bæjarstjórnarkosningum, ekki bæjarstjórakosningum. Við förum í samstarf við flokkana sem eru í framboði núna og bróðurparturinn af þeim hefur talað um núverandi bæjarstjóra og þetta verður bara rætt þegar við förum í meirihlutaviðræður.“ Sagði Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins við blaðamann Mannlífs.