Óánægja vegna verðhækkunar á Þakkargjörðarhlaðborði – “Fylgir Vaselín með?”
Töluverð umræða hefur skapast á samfélgsmiðlinum Facebook vegna mikillar hækkunar á verði á Þakkargjörðarhlaðborði, sem veitingahúsið Langbest og veisluþjónustan Menu bjóða upp á í Officeraklúbbnum í tengslum við Þakkargjörðardaginn. Verðið að þessu sinni er 4.900 krónur fyrir fullorðna, en var 2.900 krónur á síðasta ári. Frítt er fyrir börn upp að sjö ára aldri að borða, en fyrir 7-12 ára kostar máltíðin 1.100 krónur.
Viðburðurinn er afar vinsæll á meðal Suðurnesjamnna og hefur verið uppselt á hann undanfarin ár og þrátt fyrir að fólk virðist vera afar óánægt með þessa hækkun á milli ára mun vera uppselt í þetta skiptið líka, samkvæmt heimildum Suðurnes.net.
En umræðurnar á Facebook eru líflegar og taka ýmsir dæmi um hvað það myndi kosta að bjóða fjölskyldunni á þennana vinsæla viðburð, og finnst vel í lagt, eins og sjá má á meðfylgjandi skjáskotum, sem tekin voru af nokkrum umræðum á Facebook.
Þá eru ýmsir sem koma stöðunum til varnar og benda á að kannski hafi verðið verið of lágt undanfarin ár. Enn aðrir benda á að hér sé um að ræða spurningu um framboð og eftirspurn, þegar alltaf er uppselt þá hækki verðið.
Til samanburðar má geta þess að algengt verð á skötuhlaðborði er um 3.500 – 3.900 krónur og á jólahlaðborði, þar sem meðal annars er boðið upp á landsþekkta skemmtkrafta er algengt verð frá 6.900 upp í 9.900 krónur.