Nýjast á Local Suðurnes

Vill skýringar á aukakostnaði bæjarráðs – “Þurfa ekki að fá greitt fyrir hvert viðvik”

Hallfríður Hólmgrímsdóttir, fulltrúi Miðflokks í minnihluta bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar hefur óskað eftir skýringum á aukakostnaði bæjarráðs sveitarfélagsins vegna ráðningar á sviðsstjórum. Aukakostnaðurinn vegna fundarhalda bæjarráðs nemur um 400 þúsund krónum að sögn Hallfríðar.

Bókun Hallfríðar í heild sinni:

Fyrirspurn til meirihlutans vegna fundargerða bæjarráðs nr. 1490 og 1491 Ofangreindar fundargerðir innihalda hvor um sig eitt mál, viðtöl við mögulega sviðstjóra sem sóttu um starf hjá okkur og ákvörðun um ráðningu í framhaldi af því. Þarna erum við að tala um aukafund nr. 1490 á fimmtudegi, svo annar aukafundur nr. 1491 mánudaginn eftir og í kjölfarið er haldinn fundur nr. 1492 þar sem ráðningarmál er 6. mál á dagskrá og samþykktir ráðningarsamningar við sviðsstjóra. Einnig vekur athygli að þessar fundargerðir nr. 1490 og 1491 eru ekki birtar á vef Grindavíkur einhverra hluta vegna. Við viljum vita af hverju það voru auka bæjarráðsfundir um þessi mál í stað þess að bæjarfulltrúar eða bæjarráð hefðu verið boðaðir í viðtöl við umsækjendur svipað og var gert í ráðningu bæjarstjórans? Bæjarfulltrúar eru á mánaðarlaunum og þurfa ekki í hvert skipti að fá greitt fyrir hvert viðvik sem er gert. Þarna voru 2 aukafundir sem við teljum að ekki hafi þurft að boða til sem er aukakostnaður uppá rúmlega 400þús kr.- Ef þið ætlið að vísa í lög eða reglugerðir þá vinsamlegast nefnið hvaða lög eða reglugerð á við.
Hallfríður Hólmgrímsdóttir, Miðflokknum.

Bæjarráð mun veita svör við spurningum Hallfríðar á næsta fundi ráðsins.

Starfsmannamál sveitarfélagsins hafa verið töluvert í umræðunni að undanförnu og á sama fundi samþykkti bæjarstjórn viðauka við fjárhagsáætlun að fjárhæð 2.410.000 króna sem ætlaður er í sérfræðikostnað vegna vinnuumhvefismála á skrifstofum sveitarfélagsins.