Nýjast á Local Suðurnes

Stórt tap hjá Keflavík í fyrsta leik Sverris Þórs

Keflavíkurstúlkur töpuðu stórt í fyrsta deildarleik sínum undir stjórn Sverris Þórs Sverrissonar, sem tók við liðinu þegar Margrét Sturlaugsdóttir var rekin á dögunum. Fyrir leikinn sem fram fór í TM-Höllinni í Keflavík í gær hafði liðið unnið fimm af sex heimaleikjum sínum.

Tap liðsins var sem fyrr segir stórt en 22 stigum munaði á liðunum í lokin. Lið Keflavíkur skoraði 52 stig gegn 74 stigum Vals. Úrslitin setja spennu í deildarkeppnina en þrjú lið eru í 3. til 5. sæti með 12 stig, Keflavík, Valur og Grindavík.

Guðlaug Björt Júlíusdóttir og Sandra Lind Þrastardóttir voru stigahæstar í liði Keflavíkur með 10 stig en sú síðarnefnda tók 11 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 9 stig.