Nýjast á Local Suðurnes

Hætta matarúthlutunum – Skjólstæðingum bent á félagsþjónustu sveitarfélaganna

Fjölskylduhjálp Íslands, sem veitir um níu hundruð matargjafir á mánuði í Reykjavík og Reykjanesbæ, tóku ákvörðun í dag um að úthluta ekki mat á meðan ástandið er eins og það er og samkomubann er í gildi. Fjölskylduhjálp eru einu samtökin sem eru með matargjafir í Reykjanesbæ.

„Við getum ekki séð hvernig við ættum að fara að þessu. Við getum ekki teflt fólki í tvísýnu, fleiri hundruð manns koma þegar við erum að úthluta,“ segir Ásgerður Jóna Þórðardóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands við RÚV. „Okkur þykir þetta mjög leitt,“ segir hún og bendir efnaminni einstaklingum á starfsemi félagsþjónustu sveitarfélaga.