Nýjast á Local Suðurnes

Umhverfisstofnun stöðvaði niðurrif á rússatogara

Umhverfisstofnun hefur stöðvað framkvæmdir við niðurrif á togaranum Orlik, sem hafnar voru í Njarðvíkurhöfn. Stofnunin áleit að um niðurrif væri að ræða, en ekki undirbúning við færslu togarans yfir á athafnasvæði Skipiasmíðatöðvar Njarðvíkur og stöðvaði því framkvæmdir.

Skipasmíðastöð Njarðvíkur, sem sér um framkvæmd við niðurrifið fyrir hönd eiganda togarans hefur því sótt um breytingu á undaþágu frá starfsleyfi til niðurrifs á togaranum hvað varðar staðsetningu framkvæmdarinnar. Framkvæmdin sem nú er fyrirhuguð er sambærileg við áform um niðurrif við Skipasmíðastöðina, nema að nú er staðsetningin inn í höfninni, þar sem togarinn er staðsettur nú.

Í skýrslu sem unnin var í tengslum við umsókn um breytingar á staðsetningu niðurrifsins kemur fram að gert heafi verið áhættumat og útbúin viðbragðsáætlun um varnir gegn mengun hafs og stranda vegna niðurrifs togarans. Þannig er búið er að fjarlæga olíur og hættuleg efni, önnur en asbest og leifar af málningarefnum og viðhaldsefnum, úr skipinu. Öll hættuleg efni, sem enn eru í skipinu, verða fjarlægð áður en niðurrif hefst. Aðeins er gert ráð fyrir mögulegu olíusmiti á vélarhlutum og í tönkum. Eina hættulega efnið, sem eftir á að fjarlæga úr skipinu er asbest sem verður fjarlægt samkvæmt leiðbeiningum Vinnueftirlits af aðila sem hefur tilskilin leyfi frá Vinnueftirliti, sem tryggir örugga meðhöndlun og meðferð við niðurrif og förgun. Svæðið er afgirt og óviðkomandi eiga ekki greiðan aðgang.

Umsókn Skipasmíðastöðvarinnar er nú í vinnslu hjá þeim stofnunum sem að málinu koma, en stjórn Reykjaneshafnar leggst ekki gegn viðkomandi breytingum, en gerir kröfu um að skaðleysi Reykjaneshafnar gagnvart framkvæmdinni sé tryggt áður en hún hefst.