Keflvíkingar komnir í undanúrslitin eftir sigur á Njarðvík b
Það var ljóst strax í upphafi í leiks B-liðs Njarðvíkur og Keflvíkinga í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins að það yrðu Keflvíkingar sem þyrftu að ferðast alla leið til Þorlákshafnar í leikinn gegn Þór í undanúrslitum keppninnar, slíkir voru yfirburðirnir. Keflvíkingar leiddu með 20 stiga mun eftir fyrsta leikhluta, skoruðu 33 stig gegn 13 stigum heimamanna.
Keflvíkingar héldu áfram að bæta við forskotið í öðrum leikhluta og höfðu 26 stiga forskot í leikhléi, 59-33. Þriðji leikhlutinn var á svipuðm nótum, Keflvíkingar bættu í og í lok leikhlutans var forystan orðin 32 stig, 85-53.
Njarðvíkingar minnkuðu aðeins muninn í lokaleikhlutanum, enda var leikkerfið sem æft var stíft á síðustu æfingu fyrir leik farið að virka og menn röðuðu niður körfum. Njarðvíkingar með Brenton Birmingham fremstan í flokki höfðu sigur í leikhlutanum 31-23, en það dugði ekki til og Keflvíkingar eru komnir í undanúrslitin.
Ljósi punkturinn í leik Njarðvíkinga var að allir leikmenn liðsins komust á blað gegn efsta liði Dominos-deildarinnar, Brenton Birmingham skoraði 15 stig, Gabríel Sindri Möller skoraði 12 og Sævar Garðarsson skoraði 11.
Hjá Keflvíkingum var Andrés Kristleifsson atkvæðamestur með 20 stig, Ágúst Orrason gerði 15 og Magnús Þór Gunnarsson 12.