Nýjast á Local Suðurnes

Hagnaður hjá Kölku – Mikil aukning á endurvinnslustöðvum

Óendurskoðað rekstraryfirlit Kölku fyrir árið 2016 var lagt fyrir stjórn fyrirtækisins á síðasta fundi, yfirlitið var lagt fyrir beint úr bókhaldi fyrirtækisins og er því óendurskoðað, eins og áður segir.

Fram kom að afkoma fyrirtækisins stefnir í að vera svipuð og árið 2015. Rekstrartekjur hafa hækkað nokkuð frá fyrra ári og eru um 545 m.kr. og rekstrargjöld eru um 464 m.kr. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er þar af leiðandi um 81 m.kr.

Stjórn og framkvæmdastjóri eru ánægð með áætlaða afkomu og rekstrarniðurstöðu og segir Jón Norðfjörð framkvæmdastjóri, í samtali við Suðurnes.net, að fyrirtækið hafi getað haldið óbreyttu sorphirðugjald undanfarin fimm ár.

“Sorhirðugjald heimila hefur verið óbreytt undanfarin 5 ár, eða síðan 2012, sem er nánast einsdæmi hér á landi,” Segir Jón, “sértaklega í ljósi þess að Kalka er með fullkomnustu sorphreinsistöðvum landsins og því mun dýrari í rekstri.”

Þá segir Jón Suðurnesjamenn hafa verið duglega við að nýta sér endurvinnslustöðvar fyrirtækisins í Helguvík, Vogum og Grindavík, en um 3.000 fleiri nýttu sér þessa þjónustu á síðasta ári en árið á undan.

Fyrirtækið innheimtir sem kunnugt er gjald fyrir notkun endurvinnslustöðvanna, en tekjur fyrirtækisins frá einstaklingum af stöðvunum þremur námu 9,7 milljónum króna árið 2016, að sögn Jóns. Þá námu tekjur fyrirtækisins af sorpi frá fyrirtækjum um 185 milljónum króna á síðasta ári.