Nýjast á Local Suðurnes

Bílaleiga Akureyrar kaupir stórar lóðir á Ásbrú – “Núverandi aðstaða sprungin”

Bílaleiga Akureyrar hefur fest kaup á húsnæði og lóðum á Ásbrú í Reykjanesbæ. Um er að ræða tæplega 17.000 fermetra svæði við Funatröð 1-5. Á svæðinu er 1300 fermetra húsnæði. Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins staðfesti þetta í svari við fyrirspurn Suðurnes.net

“Það passar, við erum rétt búnir að kaupa þessa fasteign þarna uppfrá ásamt lóðum, þar sem núverandi aðstaða er hreinlega sprungin.” sagði Steingrímur.

Bílaleigan rekur öfluga starfsemi á Suðurnesjum, í eigin nafni og í samvinnu með öðrum og segir Steingrímur fyrirtækið vera með um 40 starfsmenn á Suðurnesjasvæðinu yfir sumartímann og á milli 20-25 á veturna.

“Starfsemi okkar á Suðurnesjunum er heilmikil, við erum með á sumrin þarna rétt um 40 starfsmenn í beinni vinnu fyrir okkur, og á veturnar eru þetta um 20 -25 manns.

Að auki eigum við helming í fyrirtæki þar sem vinna um 38 manns á sumrin og að ég best veit um 14 í vetur, sem sér um að þrífa bílana fyrir okkur og tvær aðrar bílaleigur, þannig að starfsemi okkar þarna á Suðurnesjunum er mjög mikil.” Sagði Steingrímur.