Framtakssjóður kaupir Plastgerð Suðurnesja og Borgarplast – Sameina rekstur félaganna

Framtakssjóðurinn Umbreyting hefur fest kaup á Plastgerð Suðurnesja ehf. og Borgarplasti hf., en bæði félögin eru leiðandi í framleiðslu á vörum úr frauði og framleiða meðal annars húsaeinangrun og frauðkassa til útflutnings á ferskum fiskafurðum og öðrum matvælum.
Eftir kaupin mun Umbreyting eiga 78% í sameinuðu fyrirtæki en aðrir hluthafar verða Haukur Skúlason, sem verður framkvæmdastjóri og Sigurgeir Rúnar Jóhannsson auk þess sem núverandi eigendur Plastgerðar Suðurnesja munu áfram verða í hluthafahópnum. Arion banki var ráðgjafi kaupanda, að því er segir á vef mbl.is.
„Verkefnið er spennandi og sjáum við mörg tækifæri til að sinna viðskiptavinum betur, nýjum og núverandi. Við munum sameina rekstur félaganna fljótlega og styrkja þau til vaxtar, innanlands og erlendis, auk þess sem við munum fjárfesta í nýjum vélum og búnaði og ná þannig fram frekari hagræðingu í framleiðslu,“ segir Haukur Skúlason framkvæmdastjóri í tilkynningu.