Nýjast á Local Suðurnes

Tæplega 600.000 fóru um Keflavíkurflugvöll í mars

Heildarfjöldi farþega sem fóru um Keflavíkurflugvöll í mars var 586.873. Það er 12,92% minna en á sama tíma í fyrra.

Komu- og brottfararfarþegar í mars voru 426.024 samanborið við 459.981 farþega í sama mánuði í fyrra. Það er fækkun um sem nemur tæpum 8 prósentum milli ára.

Á tímabilinu janúar til og með mars í ár hefur komu- og brottfararfarþegum fækkað um rúm 5 prósent frá sama tímabili í fyrra. Farþegaspá fyrir árið 2019 gerði ráð fyrir að þeim fækkaði um 11 prósent. Á sama tímabili hefur skiptifarþegum fækkað um 16,9% sem er nærri sex prósentustigum meiri fækkun er spáð var.

Því var spáð að íslenskum farþegum myndi fækka um 12,3% en raunin var fækkun um 8,5% á þessu þriggja mánaða tímabili.

Spáð var að erlendum ferðamönnum fækkaði um 11,8% í janúar og fram í lok mars. Raunin er fækkun upp á 4,7 prósent.

Farþegaspá Isavia er byggð á bestu fáanlegum tölum, það er frá flugrekstraraðilum sjálfum. Eins og fram hefur komið í kynningum vegna farþegaspár 2019 og árin þar á undan, er um spá að ræða og getur hún tekið breytingum.

Ný farþegaspá fyrir árið 2019 verður gefin út innan tíðar.

Hér má sjá nánar um fjölda farþega á Keflavíkurflugvelli það sem af er árinu 2019