Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvík fær sekt vegna trommukjuðakasts

Körfuknattleikssamband Íslands hefur sektað Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur um 50 þúsund krónur vegna háttsemi áhorfanda liðsins í leik Njarðvíkur og ÍR í átta liða úrslitum Íslandsmóts meistaraflokks karla sem leikinn var þann 1. apríl síðastliðinn.

Í skýrslu dómara leiksins kemur fram að undir lok leiks hafi meðlimur stuðningsmannasveitar Njarðvíkur kastað trommukjuða af afli í fætur leikmanns ÍR af fremur stuttu færi. Meðfylgjandi var myndbandsupptaka af hinu kærða atviki og eru lýsingar í atvikaskýrslu dómara í samræmi við það sem fram kemur á myndbandinu. Óskað var eftir athugasemdum frá hinu kærða félagi en engar athugasemdir bárust aga- og úrskurðarnefnd.

Þá var Grindavík einnig sektað um 50 þúsund krónur eftir að áhagandi liðsins hafði kastað klinki í höfuð Antii Kanervo leikmanns Stjörnunnar í leik fjögur í átta liða úrslitaeinvígi liðanna. Dómarar leiksins gerðu einnig athugasemd við gæslu leiksins en í athugasemd frá Grindavík kemur fram að félagið telji gæslu ekki hafa verið ábótavant umrætt sinn auk þess sem félagið alltaf fylgt því sem farið hafi verið fram á og lagt fram það sem þurfi til þegar „stórir leikir“ eru.