Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar sendu Eysteini baráttukveðjur og áritaða treyju

Fyrrum leikmaður Njarðvíkinga í körfuknattleik, Eysteinn Skarphéðinsson, greindist með 4. stigs krabbamein í vélinda fyrir nokkru síðan og hefur háð hetjulega baráttu við sjúkdóminn. Eysteinn sagðist, í átakanlegu viðtali við Stundina, telja að sjúkdómurinn væri tilkominn vegna óhóflegra reykinga og slæms lífernis í gegnum tíðina en hann hefur háð mikla og erfiða baráttu við bakkus.

 Eysteinn spilaði körfuknattleik með Njarðvík á árunum 1993-1996 og náði þeim áfanga að vinna Íslandsmeistaratitil með liðinu á þessum tíma.

„Það var ofboðslega gaman að fá að spila með þessu liði; þetta var stórveldi í íslenskum körfubolta. Mér var um sumarið 1996 boðið að fara til Stykkishólms og spila með Snæfelli sem ég spilaði með í tvö ár.” Sagði Eysteinn í viðtalinu.

Eysteinn hefur fylgst vel með Njarðvíkingum þrátt fyrir erfið veikindi og ákvað Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur að færa Eysteini körfuboltatreyju að gjöf, áritaða af öllum núverandi leikmönnum liðsins, Gunnar Örlygsson formaður deildarinnar heilsaði upp á Eystein og færði honum treyju Loga Gunnarssonar.

Gamall liðsfélagi okkar og vinur, Eysteinn Skarphéðinsson, glímir nú við erfið veikindi. Við nokkrir af hans gömlu félögum fengum liðsmenn karlaliðs UMFN til árita keppnistreyju frá sl. tímabili honum til heiðurs. Fékk hann treyjuna hans Loga afhenta í dag og gladdi sendingin hann mikið. Þrátt fyrir erfiðar stundir í vor hefur Eysteinn fylgst vel með gangi mála hjá UMFN og er félaginu tryggur stuðningsmaður. Hann bað fyrir góðri kveðju til félaga UMFN, brosti sínu breiðasta og vill að sjálfsögðu bikar á loft næsta vor. Við Njarðvíkingar sendum Eysteini okkar baráttukveðjur og þakkir fyrir stuðninginn til UMFN. Segir á Facebook-síðu Njarðvíkinga