“Landslið” Þróttar Vogum mætir ekki til leiks í bikarnum – Fara með málið alla leið
Forráðamenn handknattleiksliðs Þróttar frá Vogum á Vatnsleysuströnd hafa ákveðið að senda lið sitt ekki til fyrirhugaðs leiks gegn Þrótti frá Reykjavík í Coca Cola-bikarkeppni karla sem settur hefur verið á dagskrá í Laugardalshöll næstkomandi fimmtudag. Um er að ræða leik í annari umferð bikarsins, en liðið sigraði Fjölni í fyrstu umferð keppninnar 38-22.
Frá þessu er greint á vef Sporttv, en þar kemur fram að um sé að ræða heimaleik Þróttar Vogum sem færður var um set þar sem höfðu óskað eftir því að fundinn yrði nýr leikdagur þar sem illa gekk að fá heimavöllinn til afnota, auk þess sem erfiðlega gekk að koma liðinu saman á þessum tíma, en liðið er að mestu skipað fyrrum landsliðsmönnum í handknattleik.
Þróttur Vogum hefur leikið heimaleiki sína í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði og dróst liðið gegn nafna sínum úr Reykjavík í annarri umferð keppninnar. Strax varð ljóst að dagsetningin á leiknum hentaði ekki og var óskað eftir því að fundin yrði önnur dagsetning en sú sem lagt var upp með. Leikmenn Vogaliðsins eru margir hverjir þjálfarar og starfsmenn annarra liða og forráðamenn liðsins gáfu það strax til kynna að þeim myndi reynast erfitt að kalla saman lið í fyrirhugaðri leikviku. Þeir lögðu til tvær aðrar dagsetningar, utan fyrirhugaðrar bikarviku, að teknu tilliti til verkefna leikmanna og aðgangi að Strandgötunni, en ekki tókst að leiða málið til lykta með farsælum hætti. Leikurinn var því færður af heimavelli Þróttar Vogum á heimavöll Þróttar Reykjavík, sjálfa Laugardalshöllina, og ákveðið að hann skyldi fara fram fimmtudaginn 14.desember.
Forráðamenn Vogaliðsins vilja ekki sætta sig við þessa niðurstöðu, ætla ekki að senda lið sitt til leiks á fimmtudag og hyggjast síður en svo láta þar við sitja. Þeir telja afgreiðslu málsins óásættanlega og hafa hug á því að fara með það lengra.